Tilbúnir að ræða við Norður-Kóreu

Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, á fundi Öryggisráðs SÞ í dag.
Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, á fundi Öryggisráðs SÞ í dag. AFP

Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir bandarísk stjórnvöld reiðubúin að taka þátt í viðræðum við Norður-Kóreu um að kjarnorkuvopn verði fjarlægð af svæðinu í kringum Kóreuskagann. Hins vegar ítrekar hann að Bandaríkjamenn muni beita hervaldi ef nauðsyn krefji. Þetta sagði hann við bandaríska fjölmiðla í dag.

Fram kemur í frétt breska ríkisútvarpsins BBC að utanríkisráðherra Kína hafi sagt að friðarsamkomulag væri eina rétta leiðin í stöðunni en Kínverjar hafa verið helstu bandamenn Norður-Kóreu. Tillerson sagði á fundi í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna í dag að raunveruleg hætta væri á að Norður-Kórea réðist á nágrannaríki með kjarnorkuvopnum.

Þúsundir bandarískra hermanna eru staðsettar í Suður-Kóreu og Japan. Kallaði ráðherrann eftir því að önnur ríki slitu stjórnmálasambandi við ráðamenn í Norður-Kóreu. Tillerson kallaði ennfremur eftir því að gripið yrði til frekar refsiaðgerða gegn landinu. Ekki væri hins vegar nóg að Bandaríkin væriureiðubúin til að ræða við Norður-Kóreu. Það yrði að vera gagnkvæmt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert