Mörg þúsund mótmæltu Trump

Frá mótmælunum í dag gegn framgöngu Donalds Trump Bandaríkjaforseta í …
Frá mótmælunum í dag gegn framgöngu Donalds Trump Bandaríkjaforseta í loftlagsmálum. AFP

Þúsundir komu saman fyrir framan þinghúsið í Washington, höfuðborg Bandaríkjanna, í dag og mótmæltu framgöngu Donalds Trump Bandaríkjaforseta í loftslagsmálum.

Meðal þeirra sem tóku þátt í mótmælunum var kvikmyndaleikarinn Leonardo DiCaprio ásamt hópi frumbyggja Ameríku. Hélt hann á lofti skilti þar sem stóð að loftslagsbreytingar væru raunverulegar. Hliðstæð mótmæli voru haldin víðar um Bandaríkin. Meðal annars í New York og Chicago.

Trump var harðlega gagnrýndur fyrir áform sín um að fella úr gildi reglugerðir um umhverfisvernd sem settar voru í tíð forvera hans Baracks Obama og fyrir að reyna að auka vinnslu á olíu á nýjan leik og kolanám. 

AFP

„Við erum meirihlutinn jafnvel þótt við séum ekki við völd í augnablikinu. Meirihluti fólks er sammála þessum mótmælum. Það er öflugur minnihluti sem stendur í veginum,“ hefur AFP fréttaveitan eftir einum mótmælanda, Bill Jenkins.

Vísaði hann þar til þess að Trump hefði fengið færri atkvæði en mótframbjóðandi hans Hillary Clinton í forsetakosningunum á síðasta ári þrátt fyrir að hafa unnið fleiri kjörmenn sem að lokum velja forsetann samkvæmt kosningakerfi Bandaríkjanna. Trump hefur meðal annars sagt að tal um loftslagsbreytingar sé blekking.

Eftirlaunaþeginn Kem Morawski sem var á meðal mótmælenda sagði við AFP að markmið mótmælanna væri ekki síst að sýna þingmönnum að það væru margir kjósendur sem hefðu virkilega áhyggjur af loftslagsbreytingum. Varðandi Trump sagði hann: „Ég er ekki viss um að hann hlusti á okkur.“

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert