Munum hafa frjálsari hendur

Mark Field segir að viðskiptasamband Íslands og Bretlands geti orðið …
Mark Field segir að viðskiptasamband Íslands og Bretlands geti orðið betra eftir Brexit. mbl.is/Árni Sæberg

„Við erum spennt fyrir kosningunum, en tökum engu sem gefnu,“ segir Mark Field, þingmaður beska Íhaldsflokksins, en hann var staddur hér á landi í síðustu viku. Field er einn af varaformönnum flokksins og sinnir sérstaklega alþjóðatengslum hans. Þá hefur hann setið í öryggis- og varnarmálanefnd breska þingsins og meðal annars unnið þar að auknu samstarfi Breta við Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin.

Field hefur verið fulltrúi City of London og Westminster frá árinu 2001, en það kjördæmi nær yfir bæði helsta fjármálahverfi Lundúna sem og hverfið þar sem þinghús og helstu stofnanir Bretlands eru til húsa. „Íhaldsflokkurinn hefur haldið þessu sæti óslitið frá árinu 1874, þannig að ég vona að ég verði ekki sá fyrsti til að glata því í nærri 150 ár!“ segir Field og hlær við.

Þurfti að leita til fólksins

Field viðurkennir að tíðindin hafi komið sér í opna skjöldu líkt og flestum öðrum. Hann skilji hins vegar ástæður þess að May ákvað að stíga þetta skref, þrátt fyrir að hafa neitað því áður. „Henni finnst að það þurfi að leita til fólksins og fá umboð nú þegar búið er að virkja 50. grein Lissabon-sáttmálans. Það var erfitt að koma því í gegnum þingið, sérstaklega lávarðadeildina, og þar var tönnlast á því að hún hefði ekkert umboð.“

Jafnframt segir Field þetta kjörið tækifæri fyrir Íhaldsflokkinn til þess að setja fram hvað hann vilji fá út úr Brexit-viðræðunum, auk þess sem kosningaplagg flokksins geti betur endurspeglað hinn nýja raunveruleika sem ríkir eftir Brexit-kosningarnar í fyrra, en loforðin sem barist var fyrir árið 2015 eigi sífellt verr við. „Andstæðingar hennar segja að hún hafi ekki umboð, vegna þess að hún sé ekki kjörin. Þeir geta þá ekki kvartað mikið þegar hún sækist eftir því umboði.“

Field segist vona að Íhaldsflokkurinn geti fengið meirihluta, en skoðanakannanir sýna að staða hans er sterk. Hins vegar hafi skoðanakannanir ekki reynst nákvæmar á síðustu árum og því sé ekki á vísan að róa. Hann nefnir í framhjáhlaupi að óvænt úrslit geti alltaf gerst, hvort sem það er í knattspyrnu eða stjórnmálum, og vísar þar til hins óvænta taps Englands fyrir Íslendingum á Evrópumótinu síðasta sumar, sem situr greinilega enn í Englendingum.

Gæti styrkt stöðu May

Field nefnir einnig að kosningarnar gætu styrkt stöðu May, bæði innan síns eigins flokks, sem og gagnvart Evrópusambandinu í útgönguviðræðunum sem eiga að hefjast í sumar, þar sem góð útkoma úr kosningunum myndi sýna að breskur almenningur styddi við þá stefnu sem May hefur markað. Í ljósi þess að hið nýja kjörtímabil muni vara til ársins 2022 fái hún og Íhaldsflokkurinn einnig tækifæri til þess að leiða Bretland í gegnum fyrstu árin eftir útgönguna úr sambandinu.

Ljóst er að margar áskoranir munu bíða Breta á þeim tíma. Ein þeirra verður Skotland og blaðamaður spyr hvaða áhrif kosningarnar muni hafa á sjálfstæðismál þeirra. „Þetta verður eitt mikilvægasta málið, ekki bara í kosningabaráttunni, heldur einnig varðandi stjórnskipun og stjórnarskrá Bretlands til lengri tíma,“ segir Field. Hann á von á að Íhaldsflokkurinn muni hafna á afgerandi hátt hugmyndum um þjóðaratkvæðagreiðslu og reyna að veita Skoska þjóðernisflokknum harða mótspyrnu. Það sé hins vegar við ramman reip að draga, þar sem Íhaldsflokkurinn hafi samtals unnið fjögur þingsæti í Skotlandi í síðustu fimm þingkosningum.

Lýðræði þarf stjórnarandstöðu

Skotlandsmálið hafi einnig sýnt hversu lök staða Verkamannaflokksins er, þó að hann sé stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn. Field segir að hann hafi upplifað tímana tvenna í stjórnarandstöðu og stjórn, og því hlakki ekki mikið í honum yfir þeirri stöðu. „Til þess að stjórnmálin virki þarf stjórnarandstaðan að vera öflug. Ég á marga vini í þingflokki Verkamannaflokksins og nokkrir þeirra eru að íhuga það hvort þeir eigi yfirhöfuð að bjóða sig fram á ný.“ Field segir það ekki gott fyrir stjórnmálin.

„Ef lýðræðið á að virka, þá þarf að vera tilfinning um að það séu raunhæfir valkostir til staðar. Ég finn það á samtölum mínum við fólk víðs vegar um landið, jafnvel í samtölum við fólk sem hefur verið í Verkamannaflokknum um langt skeið, að þar ríkir ákveðið vonleysi um ástand flokksins.“

Getum átt í góðu sambandi

Field segir að hann vonist til þess að útgangan úr Evrópusambandinu muni verða til þess að Bretar og Íslendingar geti átt í betra viðskiptasambandi en áður. Hann segir að hendur Breta, til dæmis í sjávarútvegsmálum og landbúnaði, hafi verið nokkuð bundnar vegna stefnu sambandsins en að þær muni verða frjálsari eftir útgönguna.

„Ég veit að Boris Johnson utanríkisráðherra hefur þegar hitt íslenska ráðamenn og rætt það og ég vona að við getum gert samninga á þessum sviðum, sem Íslendingar geta nú þegar gert við önnur ríki utan Evrópusambandsins,“ segir Field að lokum.

Field segir að Brexit-menn hafa höfðað betur til tilfinninga fólks.
Field segir að Brexit-menn hafa höfðað betur til tilfinninga fólks. AFP

Ísland náð góðum bata

Field segir Icesave-málið hafa verið vonda stund í samskiptum Íslands og Bretlands. „Það var óheppilegt að Brown greip til hryðjuverkalöggjafar. Ég tel ekki að það hafi verið viljandi, það var bara sú löggjöf sem var til staðar.“ Field segir ýmislegt hægt að læra af reynslu Íslands af fjármálakreppunni. „Það er auðvitað mikill munur á Íslandi og Bretlandi, en lexían virðist vera sú, að það að leyfa bönkunum að falla hafi verið rétt ákvörðun,“ segir Field. Bretar hafi hins vegar lagt mikið í að bjarga breskum bönkum, og muni aldrei fá þá fjármuni til baka. „Miðað við allt, þá hefur Ísland náð undraskjótum bata.“

Brexit-menn höfðu tilfinningar með sér

Field var að eigin sögn fremur efins um ágæti þess að Bretar segðu sig úr Evrópusambandinu. „Móðir mín heitin var þýsk, þannig að ég hef tilfinningaleg tengsl við meginland Evrópu og þetta ótrúlega verkefni sem það var að endurreisa það á sjötta áratugnum.“ Field segir það hafa verið mikið afrek eftir heimsstyrjaldirnar tvær og fransk-prússneska stríðið á 19. öld að ná að mynda bandalag á milli hinna heitu fjandmanna, Frakklands og Þýskalands. Vandinn hafi verið að erfitt hefði verið að færa Bretum þau rök fyrir tilvist sambandsins.

„Frá sjónarhóli Breta er Evrópusambandið of skriffinnskulegt, og til að gæta allrar sanngirni, þá höfum við aldrei almennilega fallið fyrir þessari Evrópuhugsjón, þetta var alltaf frekar viðskiptalegs eðlis fyrir okkur,“ segir Field.

Hann tekur einnig fram að fyrir sér hafi efnahagsrökin fyrir áframhaldandi veru Breta innan ESB ekki verið svo klippt og skorin. Þá hafi dómsdagsspár sem Cameron forsætisráðherra og Osborne fjármálaráðherra, sem fengu heitið „Project Fear“ í Bretlandi, ekki virkað sannfærandi á sig. „Það virkaði aldrei á mig sem sérstaklega trúverðug rök, að Bretar myndu enda í kreppu ef þeir færu.“ Field segir að staða sín sem þingmanns fjármálahverfisins hefði sannfært sig um að London yrði áfram gríðarlega mikilvæg fjármálamiðstöð fyrir Evrópu þrátt fyrir Brexit, en að í heildina hefði það verið betra að vera áfram innan sambandsins.

„Það að Remain-fylkingin einbeitti sér bara að efnahagsrökunum, sem hafa síðan ekki reynst allskostar nákvæm, þýddi að baráttan fyrir verunni innan ESB skorti algjörlega á tilfinningahliðina, á meðan þeir sem börðust fyrir Brexit gátu tengst þessari tilfinningabaráttu. Ég tel að það sé ein ástæðan fyrir því hvers vegna allt fór eins og það fór,“ segir Field.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert