Stráði blómum yfir lík dóttur sinnar

Jiranuch Trirat stendur og horfir á mynd af dóttur sinni, …
Jiranuch Trirat stendur og horfir á mynd af dóttur sinni, Natalie, sem var drepin í beinni útsendingu á Facebook. AFP

Ellefu mánaða gömul stúlka, sem var myrt af föður sínum sem sýndi voðaverkið í beinni útsendingu á Facebook, var borin til grafar í Taílandi í dag. Faðir stúlkunnar svipti sig lífi í kjölfar morðsins.

Útförin fór fram að Búdda-sið á Phuket-eyju og voru fjölmargir ættingjar litlu stúlkunnar viðstaddir. 

Stúlkan hét Natalie. Faðir hennar hengdi hana á yfirgefinni byggingu síðasta mánudag. Hann var tvítugur. Hann hengdi svo sjálfan sig stuttu eftir að hafa framið voðaverkið. 

Jiranuch Trirat, 22 ára móðir stúlkunnar, stráir blómum yfir lík …
Jiranuch Trirat, 22 ára móðir stúlkunnar, stráir blómum yfir lík dóttur sinnar. AFP

Margir deildu og „lækuðu“

Hundruð þúsunda manna hafa séð myndskeiðið af morðinu á netinu. Þeirra á meðal er móðir stúlkunnar. Það var ekki fyrr en sólarhring seinna sem myndskeiðið var fjarlægt af Facebook. Í kjölfarið hefur fólk krafist þess að Facebook bæti þjónustu sína og grípi fyrr til aðgerða þegar mál á borð við þetta koma upp. 

Litla stúlkan var í dag lögð í litla gröf. Móðir hennar dreifði blómum yfir hana áður en ættingjar mokuðu mold yfir lík hennar. 

„Mér finnst hræðilegt að fólk hafi deilt og „lækað“ myndbandið,“ hefur AFP-fréttastofan eftir föðurömmu litlu stúlkunnar. „Mér þykir svo leitt hvað sonur minn gerði.“

Móðir Natalie sagði að sér liði betur eftir að stúlkan hafi verið jörðuð. Hún hefur sagt að kærasti hennar og barnsfaðir hafi alltaf verið góður við dóttur þeirra. Því sé það á huldu hvers vegna hann drap hana.

Að undanförnu hafa komið upp nokkur tilvik þar sem sýnt er frá hroðalegum glæpum í beinni á Facebook. Þannig var hópnauðgun sýnd í beinni í Svíþjóð svo dæmi sé tekið.

Móðir stúlkunnar segir Facebook ekki um að kenna. Hún hefur fyrirgefið barnsföður sínum. „Ég hef fyrirgefið honum því að halda í reiðina lengi mun ekki færa mér dóttur mína til baka.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert