Minni stuðningur við Brexit

AFP

Breskir kjósendur skiptast í nánast jafnar fylkingar í afstöðu til þess hvort það hafi verið rétt ákvörðun að ganga úr Evrópusambandinu samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar, en samþykkt var í þjóðaratkvæði í Bretlandi síðasta sumar að yfirgefa sambandið með 52% gegn 48%. Fjallað er um könnunina á fréttavef breska dagblaðsins Independent.

Fram kemur í fréttinni að 45% telji nú að um ranga ákvörðun hafi verið að ræða, samkvæmt skoðanakönnuninni sem gerð var af fyrirtækinu YouGov, en 43% telja hana hafa verið rétta. Ef aðeins er miðað við þá sem taka afstöðu með eða á móti er 51% á því að ákvörðunin hafi verið röng en 49% að hún hafi verið sú rétta. Önnur nýleg könnun fyrirtækisins bendir til þess að 44% séu andvíg útgöngunni úr Evrópusambandinu og sama hlutfall hlynnt henni.

Fram kemur í fréttinni að andstaða við það að Bretland gangi úr Evrópusambandinu (sem kallað hefur verið Brexit) hafi ekki mælst jafnmikil á undanförnum mánuðum og kannanirnar bendi til þess að stuðningur við útgönguna kunni að fara minnkandi. Það gerist á mikilvægum tíma fyrir ríkisstjórn Bretlands sem vinnur að því að framfylgja niðurstöðu þjóðaratkvæðisins.

Boðað hefur verið til þingkosninga í landinu 8. júní og benda kannanir til þess að Íhaldsflokkurinn, sem myndar núverandi ríkisstjórn undir forystu Theresu May forsætisráðherra, eigi eftir að bæta við sig miklu fylgi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert