Blair boðar endurkomu sína

Blair boðar endurkomu sína á hið pólitíska svið en hyggst …
Blair boðar endurkomu sína á hið pólitíska svið en hyggst þó ekki gefa kost á sér til þingsetu. AFP

Tony Blair hyggst blanda sér í umræðuna um brotthvarf Bretlands úr Evrópusambandinu sökum þess hversu illa gæti farið. Forsætisráðherrann fyrrverandi segist hafa áhyggjur af afleiðingum þess að yfirgefa sameiginlegan markað ESB og segir suma Íhaldsmenn tilbúna til að knýja fram Brexit sama hvað það kostar.

Blair hefur sagt að hann hyggist freista þess að tengja aftur við kjósendur til að koma skilaboðum sínum á framfæri en hann hyggst þó ekki bjóða sig fram til þingsetu í komandi kosningum.

„Ég ætla að taka virkan þátt í að reyna að móta stefnumótunarumræðuna og það þýðir að fara á stúfana og tengja aftur... Þetta Brexit-mál hefur verið mér hvatning til að blanda mér aftur í stjórnmálin. Þú verður að vera tilbúinn til að óhreinka hendurnar og ég mun gera það,“ sagði Blair í samtali við Daily Mirror.

Hinn fyrrverandi leiðtogi Verkamannaflokksins sagði að afleiðingar svokallaðs harðs Brexit væru skýrar: „Hinn sameiginlegi markaður kom okkur í Meistaradeild viðskiptasamninga. Fríverslunarsamningur er eins og 1. deild. Við erum að fella okkur um deild,“ sagði hann.

Blair viðurkenndi að það myndu ekki allir fagna endurkomu hans á hið pólitíska svið. „Ég veit að um leið og ég sting höfðinu út um dyrnar fæ ég fötu af skít yfir mig. En þetta varðar mig miklu. Ég vil ekki lenda í því að fara í gegnum þetta augnablik í sögunni og hafa ekki sagt neitt, því það myndi þýða að mér væri alveg sama um þetta land. En mér er ekki sama,“ sagði hann.

Leiðtoginn fyrrverandi segist gera ráð fyrir að þátttaka hans í stjórnmálaumræðunni næstu vikur muni hafa „blönduð“ áhrif á gengi Verkamannaflokksins í kosningunum 8. júní nk.

Ítarlega frétt má finna hjá Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert