May ætlar að vera Juncker „fjári erfið“

Jean-Claude Juncker, for­seti fram­kvæmda­stjórn­ar Evr­ópu­sam­bands­ins, og Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, …
Jean-Claude Juncker, for­seti fram­kvæmda­stjórn­ar Evr­ópu­sam­bands­ins, og Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, funduðu í Downingstræti í síðustu viku. AFP

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, segist ætla að reynast Jean-Claude Juncker, for­seta fram­kvæmda­stjórn­ar Evr­ópu­sam­bands­ins, „fjári erfið kona“ í Brexit viðræðunum um útgöngu Breta úr ESB.

May notaði þessa lýsingu er hún var spurð út í fullyrðingar um að það hefði komið til orðaskipta milli þeirra Junckers í kvöldverðaboði.

Heimildir BBC innan framkvæmdastjórnar ESB fullyrða að misskilnings gæti hjá breskum stjórnvöldum varðandi viðræðuferlið og skortur sé á þekkingu þeirra á því hvernig framkvæmdavaldið í Brussel starfi. Þetta kunni að leiða til þess að enginn samningur náist um útgöngu Breta úr sambandinu.

Þýska dagblaðið Frankfurter Allgemeine segir Juncker og May hafa átt orðaskipti í kvöldverðaboði í Downingstræti í síðustu viku, vegna löngunar May til að Brexit lukkist vel og þess að hægt verði að tryggja réttindi þeirra Breta sem búsettir eru í ríkjum ESB og ESB borgara sem búsettir eru í Bretlandi strax í næsta mánuði.

May sagði í samtali við BBC í dag að viðræðurnar eigi eftir oft eftir að reynast erfiðar. „Í formannsframboðinu fyrir Íhaldsflokkinn þá lýsti einn kollega minna mér sem „fjári erfiðri konu“, og ég sagði á þeim tíma að sá næsti sem myndi komast að þeirri sömu niðurstöðu væri Jean-Claude Juncker.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert