Stefna á fund í júlí

Trump og Pútín virðast hafa náð ágætlega saman í dag …
Trump og Pútín virðast hafa náð ágætlega saman í dag eftir erfiðar vikur. AFP

Donald Trump átti „mjög gott“ samtal við Vladimir Pútín Rússlandsforseta í dag um diplómatíska lausn á átökunum í Sýrlandi, að því er segir í yfirlýsingu frá Hvíta húsinu. Ræddu forsetarnir m.a. að koma á „öruggum svæðum“ í landinu.

Um er að ræða fyrsta samtal leiðtoganna, sem vitað er um, síðan Bandaríkin gerðu árásir á flugstöð sýrlenska stjórnarhersins í apríl sl.

„Trump forseti og Pútín forseti voru sammála um að þjáningarnar í Sýrlandi hafa staðið yfir of lengi og að allir aðilar verða að gera allt sem þeir geta til að binda enda á ofbeldið,“ sagði í yfirlýsingunni.

Bandaríkin sögðust myndu senda fulltrúa til vopnahlésviðræðanna í Astana, höfuðborg Kasakstan, á miðvikudag og þá ræddu forsetarnir samstarf til að „uppræta hryðjuverkastarfsemi“ í Mið-Austurlöndum.

Norður-Kóreu bar einnig á góma og samkvæmt frásögn rússneskra stjórnvalda af samtali forsetanna kallaði Pútín eftir því að menn héldu aftur að sér og drægju úr spennu á Kóreuskaganum.

Leiðtogarnir voru sammála um að freista þess að funda í tengslum við G20 fundinn í Hamborg 7.-8. júlí.

Samtal Trump og Pútín hefur þegar verið gagnrýnt, m.a. af fulltrúa Demókrataflokksins, sem sagði „bromance“ forsetanna augljóslega hafa verið endurvakinn og að í stað þess að ræða stuðning Rússa við Bashar al-Assad Sýrlandsforseta hygðist Trump fara leið friðþægingarinnar.

Ítarlega frétt má finna hjá Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert