Þurfa ekki lengur að sýna skilríki

Eyrarsundsbrúin markar landamæri Svíþjóðar og Danmerkur.
Eyrarsundsbrúin markar landamæri Svíþjóðar og Danmerkur. AFP

Sænsk yfirvöld hafa ákveðið að hætta kerfisbundnu landamæraeftirliti við dönsku landamærin sem var kynnt til sögunnar í janúar 2016 til að stemma stigu við auknum straumi flóttamanna til landsins.

Þetta kom fram á blaðamannafundi sem Anders Ygeman, innanríkisráðherra Svíþjóðar, og Anna Johansson, ráðherra innviða, héldu í dag.

Í máli þeirra kom einnig fram að stjórnvöld munu auka yfirsýn lögreglu og tollgæslu við landamærin.

„Skoðun ríkisstjórnarinnar er sú að landamæraeftirlit sé ávallt nauðsynlegt og að auka þurfi umfang þess,“ sagði Ygeman.

Kerfisbundu eftirliti með skilríkjum almennings verður aftur á móti hætt á tveimur stöðum við dönsku landamærin vegna þess að mjög hefur dregið úr flóttamannastraumnum.

Annar staðurinn er á Eyrarsundsbrúnni og hinn á landamærum Helsingor í Danmörku  og Helsingborgar í Svíþjóð.

Þúsundir Svía og Dana sem ferðast á milli Malmö og Kaupmannahafnar á degi hverjum hafa kvartað yfir kerfisbundna landamæraeftirlitinu síðan í janúar í fyrra.

Að sögn Ygeman hefur flóttamönnum sem fara til Norðurlanda fækkað um 80%.

Svíar tóku á móti 81 þúsund hælisleitendum árið 2014 og 163 þúsund árið 2015. Á síðasta ári var fjöldinn kominn niður í 29 þúsund og búist er við svipuðum fjölda á þessu ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert