Þurfa að hætta eftirlitinu fyrir árslok

Lögreglan í Malmö í Svíþjóð skoðar skilríki á lestarstöðinni. Sænsk …
Lögreglan í Malmö í Svíþjóð skoðar skilríki á lestarstöðinni. Sænsk yfirvöld ætla að hætta slíku eftirliti og öðrum Schengen-ríkjum sem tóku það upp er gert að hætta því fyrir árslok. Asger Ladefoged

Þau ríki Evrópusambandsins, sem tóku upp kerfisbundið landamæraeftirlit innan Schengen-landamæra sinna til að stemma stigu við straumi flóttamanna, ættu að hafa hætt slíku eftirliti í nóvember í síðasta lagi.

Sænsk yfirvöld greindu frá því fyrr í dag að þau hafi ákveðið að hætta slíku eftirliti.

Yfirvöld í Austurríki, Danmörku, Þýskalandi, Svíþjóð og Noregi tóku upp kerfisbundið eftirlit með skilríkjum þeirra sem koma yfir landamæri ríkjanna árið 2015 vegna flóttamannastraumsins og hafa ítrekað fengið að framlengja eftirlitið.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins tilkynnti í dag að mælt yrði með að í þessum mánuði yrði í síðasta skipti veitt heimild til að framlengja heimildina og að hálfs árs frestur yrði veittur á að hún yrði endanlega afnumin.

„Það er orðið tímabært að taka lokaskrefin til að snúa hægt og rólega aftur að hefðbundinni starfsemi Schengen-svæðisins,“ sagði Dimitris Avramopoulos, sem fer með mál­efni flótta- og far­and­fólks í fram­kvæmda­stjórn ESB.

„Þetta verður síðasta framlengingin.“

22 ríki ESB eru aðilar að Schengen-samkomulaginu, auk Íslands, Liechtenstein, Noregs og Sviss.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert