Ekki ákært fyrir dráp á Sterling

Alton Sterling.
Alton Sterling. AFP

Bandaríska dómsmálaráðuneytið hefur ákveðið að ákæra ekki tvo hvíta lögreglumenn sem skutu og drápu svartan mann í Louisiana síðasta sumar. Myndskeið sýnir hvernig þeir halda Alton Sterling niðri og skjóta hann til bana vakti gríðarlega reiði og tóku fjölmargir þátt í mótmælafundum í Baton Rouge dögum saman.

Ákvörðun dómsmálaráðuneytisins var lekið til bandarískra fjölmiðla í gær áður en búið var að greina borgarstjóranum í Baton Rouge og fjölskyldu Sterling frá henni. Fljótlega eftir að fyrstu fréttir bárust af ákvörðun ráðuneytisins fór fólk að streyma að versluninni þar sem Sterling var skotinn til bana. Eins kom fólk saman fyrir utan höfuðstöðvar lögreglunnar í borginni. 

Rannsókn hófst á láti Sterling fljótlega eftir að hann var skotinn fyrir utan matvöruverslunina en þar var hann að selja hljómdiska. Ákvörðun ríkisins um að ákæra ekki er tekin eftir að ný ríkisstjórn tók við í Bandaríkjunum og Jeff Sessions tók við sem dómsmálaráðherra. Aftur á móti er ekki útilokað að Louisiana-ríki muni ákærða.

Lögreglan var kölluð  að versluninni í Baton Rouge þar sem talið var að maður væri að ógna fólki með byssu fyrir utan verslunina. Símamyndskeið sína þar sem lögreglumennirnir tveir eiga í átökum við mann í rauðri blússu. Annar lögreglumaðurinn hélt handlegg mannsins niðri með hné sínu og síðan dró hann upp byssu og beindi henni að manninum. Rödd heyrist: Hann er með byssu. Síðan heyrast skothvellir og myndavélinni er beint annað.

Sterling, 37 ára fimm barna faðir, lést á staðnum. Að sögn lögreglu neitaði hann að hlýða skipunum og því hafi þeir beitt rafbyssu til þess að koma honum niður á jörðina. Síðan hafi þeir séð byssu í vasa hans og séð hendi hans nálgast byssuna líkt og hann ætlaði að ná til hennar rétt áður en þeir skutu hann til bana.

New York Times og Washington Post birtu fyrstu fréttir af því að ekki yrði ákært og var fjölskylda Sterling mjög ósátt við að ekki væri búið að hafa samband við hana áður en fréttinni var lekið í fjölmiðla. CNN segir í frétt af málinu að ekki hafi fengist staðfest að fréttin væri rétt að ekki yrði ákært en dómsmálaráðuneytið sendi frá sér tilkynningu í gærkvöldi um að ekki væri búið að taka ákvörðun um hvort ákærð yrði eður ei. Lögmenn Louisiana ríkis segja í samtali við CNN að þeir hafi ekki fengið neinar fréttir af niðurstöðu ráðuneytisins.

CNN

NYT

Fjölskyldu Sterling var mjög brugðið þegar fréttirnar bárust í gær.
Fjölskyldu Sterling var mjög brugðið þegar fréttirnar bárust í gær. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert