Segja sig frá friðarviðræðum

Fleiri hundruð þúsund almennir borgara hafa látist frá því stríðið …
Fleiri hundruð þúsund almennir borgara hafa látist frá því stríðið hófst í Sýrlandi fyrir sex árum. AFP

Sýrlenskir uppreisnarmenn hafa sagt sig frá friðarviðræðum sem hófust í Astana, höfuðborg Kasakstan, í morgun. Ástæðan eru ítrekaðar loftárásir á almenna borgara. Heimildir AFP fréttastofunnar herma að þeir muni ekki setjast að samningaborðinu á nýjan leik fyrr en loftárásum verði hætt í Sýrlandi. Fulltrúar stjórnvalda í Sýrlandi og sendinefnd uppreisnarmanna voru mættar til Astana þegar tilkynnt var um þetta. 

Viðræðurnar eru haldnar að undirlagi Rússa, Írana og Tyrkja. Um er að ræða fjórðu umferð viðræðna á milli stríðandi fylkinga í Sýrlandi. 

Tilgangur þeirra er að koma á friði í landinu eftir sex ára blóðugt stríð þannig að hægt verði að bjóða landsmönnum upp á öruggt skjól í eigin landi. 

Ef samkomulag næst yrði þegar farið að koma neyðarbirgðum til fólks á stríðshrjáðum svæðum og flóttamenn hvattir til að snúa aftur heim.

Frá Azaz í morgun.
Frá Azaz í morgun. AFP

Í morgun létust að minnsta kosti fimm þegar bílsprengja sprakk í bænum Azaz skammt frá landamærum Tyrklands. Bærinn er undir yfirráðum uppreisnarmanna. Fjórir almennir borgarar og lögreglumaður létust en óttast er að tala látinna muni hækka hratt þar sem fjölmargir særðust alvarlega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert