Óvissan er verst

Flóttabörn í Aþenu.
Flóttabörn í Aþenu. AFP

Tæplega 75 þúsund flóttamenn, þar á meðal 24.600 börn, hafa lokast inni í ríkjum eins og Grikklandi, Búlgaríu, Ungverjalandi og á Balkanskaganum. Þeir eiga á hættu að glíma við sálrænan vanda vegna þeirra aðstæðna sem þeir búa við. Þrátt fyrir að eiga rétt á því samkvæmt lögum að sameinast fjölskyldum sínum í löndum eins og Svíþjóð og Þýskalandi vita þeir ekki hvenær það muni gerast. Eða hvort það muni gerast.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, þar sem fjallað er um vanda flóttafólks, þar á meðal barna, sem hefur verið stöðvað í þessum ríkjum á flótta sínum til annarra landa í Evrópu þar sem kannski hluti fjölskyldu þeirra er nú þegar kominn.

Flóttinn er oft mjög hættulegur og fara oft fjölskyldufeðurnir fyrst …
Flóttinn er oft mjög hættulegur og fara oft fjölskyldufeðurnir fyrst af stað en konurnar og börnin síðar. AFP

UNICEF telur að það sé sérstaklega mikilvægt fyrir einstæðar mæður og börn, sem eru föst í Grikklandi eða á Balkanskaganum, að fá heimild til þess að sameinast fjölskyldum sínum sem eru þegar í öðrum ríkjum Evrópusambandsins. 

Ferli sem getur tekið 2 ár

Í mörgum tilvikum flýr fjölskyldufaðirinn fyrstur til Evrópu og síðan fylgja aðrir í fjölskyldunni á eftir þegar fjölskyldufaðirinn er kominn í öruggt skjól í Evrópu enda flóttaleiðir oft mjög hættulegar. Eftir að sífellt fleiri ríki Evrópu lokuðu landamærum sínum og ESB gerði samning við Tyrki um að endursenda flóttamenn þaðan hafa aðrir en þeir sem þegar voru komnir til ríkja eins og Þýskalands og Svíþjóðar setið fastir í þessum ríkjum. Þar verða þeir að sækja um fjölskyldusameiningu, ferli sem tekur frá tíu mánuðum upp í tvö ár. 

Svæðisstjóri UNICEF í Evrópu, Afshan Khan, segir að meðal flóttafólks í Grikklandi, Serbíu og Búlgaríu séu konur og börn sem ekki hafa hitt eiginmenn og feður sína í marga mánuði og sumum tilvikum árum saman.

Fjölskyldusameiningarferlið gangi hægt og óvissa fylgi því. Óvissan sé í raun sá þáttur sem valdi börnum og fjölskyldum mestum erfiðleikum og auki líkurnar á að fólk þjáist af áfallastreituröskun. Sálrænir kvillar geta fylgt börnum árum saman.

UNICEF ásamt fleiri hjálparsamtökum í Grikklandi fylgist með andlegri heilsu og þunglyndi meðal einstæðra mæðra og barna sem bíða eftir því að sameinast fjölskyldum sínum og reyna að veita þeim sálrænan stuðning.

Margar mæður hafa í raun gefist upp og glatað trúnni á að fjölskyldan eigi eftir að sameinast á nýjan leik, segir Sofia Tzelepi, lögfræðingur sem starfar með Solidarity Now, samstarfsaðila UNICEF. „Andlegt ástand þeirra hefur áhrif á börn þeirra,“ segir hún.

Flestar beiðnir um fjölskyldusameiningu koma frá börnum og öðru fjölskyldufólki sem kemst hvorki lönd né strönd frá Grikklandi. Oft er um að ræða tvö aðildarríki ESB og tekur ferlið oft langan tíma.

Hefur fjölgað um 60%

Af um fimm þúsund beiðnum um fjölskyldusameiningar í fyrra, þar af um 700 frá börnum sem voru ein á ferð þar sem þau höfðu oft orðið viðskila við foreldra eða aðra ættingja á flóttanum, hefur aðeins verið leyst úr 1.107 beiðnum á jákvæðan hátt. Á sama tíma fjölgar alltaf flóttamönnum í Grikklandi, Ungverjalandi og Vestur-Balkanskaganum. Í mars 2016 voru þeir 47 þúsund talsins en í lok apríl í ár voru þeir tæplega 80 þúsund talsins. Fjölgunin er um 60%.

Khan segir bestu leiðina til þess að vernda börn að halda fjölskyldum saman. „Þess vegna er fjölskyldusameining svo mikilvæg fyrir börn á flótta,“ segir Khan í fréttatilkynningu frá UNICEF.

Á sama tíma og sífellt fjölgar í hópi þeirra sem sitja fastir í þessum ríkjum er það skylda aðildarríkja að losa um þá flöskuhálsa sem nú eru til þess að fjölskyldur geti sameinast eins fljótt og auðið er, segir Khan enn fremur í  tilkynningu UNICEF.

Andleg líðan fólks sem bíður mánuðum saman eftir því að …
Andleg líðan fólks sem bíður mánuðum saman eftir því að sameinast fjölskyldu sinni er oft mjög slæm. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert