Halda áfram árásum utan sérstöku svæðanna

Sýrlensk börn í rústum bæjarins al-Bab, sem er nærri landamærum …
Sýrlensk börn í rústum bæjarins al-Bab, sem er nærri landamærum Tyrklands. Sérstöku svæðinu eru hugsuð til að draga úr spennu. AFP

Samkomulag um að sérstök svæði í Sýrlandi, þar sem draga á úr spennu, tekur gildi á miðnætti í kvöld. Rússneski flugherinn mun þó halda áfram árásum sínum gegn hryðjuverkasamtökunum Ríki íslams, alls staðar annars staðar í Sýrlandi að sögn rússneska utanríkisráðuneytisins.

Fyrsta og stærsta slíkt svæðið verður í norðurhluta Sýrlands og mun taka yfir Idlib-hérað og nágrannahéruðin Latakia, Aleppo og Hama þar sem rúm milljón manna býr.

Stjórnvöld í Íran og Tyrklandi féllust á fimmtudag á tillögu Rússa um að koma upp svæði þar sem dregið væri úr spennu.

Reuters-fréttastofan segir upplýsingar á minnisblaði um málið hins vegar vera óljósar og einn stærsti hópur uppreisnarmanna segar það skorta allt lögmæti.

Sérstöku svæðunum er ætlað að draga úr átökum á þeim stöðum milli sýrlenska stjórnarhersins og uppreisnarmanna og er erlendum hersveitum ætlað að halda þar uppi eftirliti.

Rússnesku fréttastofurnar RIA og Interfax hafa hins vegar eftir Alexander Fomin, aðstoðarvarnarmálaráðherra Rússands, að sú staðreynd að Sameinuðu þjóðirnar, Bandaríkin og Sádi-Arabía, styðja samkomulagið tryggir að því verði komið á.

Jeff Davids, talsmaður bandaríska varnarmálaráðuneytisins, sagði við fjölmiðla þar í landi í dag að afstaða Bandaríkjanna og bandamanna þeirra í Sýrlandsstríðinu væri óbreytt, en neitaði að tjá sig um sérstöku svæðin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert