Rússneskir miðlar ætla í mál við Macron

Auglýsingaplakat á vegg í París af forsetaframbjóðandanum Emmanuel Macron, sem …
Auglýsingaplakat á vegg í París af forsetaframbjóðandanum Emmanuel Macron, sem búið er að skemma. Rússneskir fjölmiðlar segjas nú ætla í mál við Macron. AFP

Rússneska ríkissjónvarpsstöðin RT og Spútnik-fréttastofan ætla að höfða mál gegn franska forsetaframbjóðendanum Emmanuel Macron vegna ásakana framboðs hans um að fjölmiðlarnir hafi staðið fyrir óhróðursherferð gegn honum. Þetta sagði Margarita Simonyan, aðalritstjóri miðlanna, á Twitter í dag.

„Við erum hundleið á lygum þeirra. Við ætlum í mál,“ skrifaði Simonyan.  

Í yfirlýsingu frá Spútnik, sem RIA Novosti-fréttastofan vísar í, kemur fram að Spútnik ætli að setja sig í samband við lögfræðinga vegna „sífelldra falskra ásakana frá höfuðstöðvum EM“ en fréttastofan vísar þar til En Marche! hreyfingar á Macrons.

Frakkar ganga að kjörkössunum á sunnudag og velja milli þeirra Macrons og Marine Le Pen, frambjóðanda frönsku Þjóðfylkingarinnar.

Talsmaður Macrons, Benjamin Griveaux, ásakaði í viðtali við franska fjölmiðla í febrúar rússnesk yfirvöld um að standa að óhróðursherferð.  

Þá sakaði hann RT og Spútnik, en báðir miðlar eru einnig með franska fréttaþjónustu, um að reyna að ata miðjumanninn Macron auri. Macron þurfti í kjölfarið að neita orðrómi um að hann væri samkynhneigður.

Rússnesk stjórnvöld höfnuðu ásökunum Griveaux alfarið.

„Við höfum aldrei, né höfum við neinar áætlanir uppi um að skipta okkur af innanríkismálum annarra ríkja og sérstaklega ekki kosningaferli þeirra,“ sagði Dmitry Peskov, talsmaður rússneskra stjórnvalda, á þeim tíma.

Macron lagði nú í vikunni fram kæru vegna orðróms um að hann eigi aflandsreikninga á Bahama og vísaði Le Pen til þessa orðróms í sjónvarpskappræðum þeirra á miðvikudagskvöld.

Macron sagði í viðtali við franska útvarpsstöð næsta dag að orðrómurinn væri „falskar fréttir og lygar“ frá vefsíðum sem hefðu tengsl við Rússa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert