Blóðbaðið á barnum enn ráðgáta

Blóm skammt frá Heights-barnum í Loughinisland.
Blóm skammt frá Heights-barnum í Loughinisland. Ljósmynd/Kynningarmynd fyrir myndina No Stone Unturned.

Um klukkan tíu að kvöldi 18. júní árið 1994 var Írland yfir í leik sínum gegn Ítalíu, 1-0, í upphafsleik heimsmeistaramótsins í knattspyrnu sem fram fór í New Jersey. Seinni hálfleikur var nýhafinn. Á Heights-barnum í bænum Loughinisland, suður af Belfast á Norður-Írlandi, voru augu allra gesta límd við sjónvarpsskjáinn. Barinn er lítill og þar sátu aðeins um fimmtán manns.

Allt í einu var hurðinni hrundið upp. Tveir menn í samfestingum gengu inn. Svo hófst skothríð. Annar byssumaðurinn fór niður á hné og dældi skotum úr hríðskotabyssu sinni. Hleypt var af í miklu návígi.

Staðan var 1-0 fyrir Írlandi og seinni hálfleikur var nýhafinn. …
Staðan var 1-0 fyrir Írlandi og seinni hálfleikur var nýhafinn. Þá dundu ósköpin yfir.

Sá sem fyrst var skotinn hét Barney Greene. Hann var 87 ára fyrrverandi bóndi. En hann var aðeins fyrsta fórnarlambið.

Gestir barsins og þjónninn reyndu að koma sér undan. Byssumennirnir flúðu svo af vettvangi og þjónninn, Aidan O'Toole, sem hafði orðið fyrir skotum, sneri aftur að barborðinu. Reykur eftir skothríðina lá yfir litlu kránni. „Það voru lík út um allt. Þetta var eins og martröð,“ sagði hann í viðtali við Guardian árið 2012.

Sex létust. Fimm særðust.

Á þessum tíma stóðu átök milli mótmælenda og kaþólikka í landinu sem hæst. Skæruhernaður sem þessi einkenndi deilurnar sem stóðu í um þrjá áratugi. Þeim lauk ekki fyrr en með Föstudagssáttmálanum svokallaða árið 1998. En sárin eru enn að gróa.

Það á ekki síst við um Loughinisland-morðin. Enginn var ákærður. Enginn var dæmdur. Óskarsverðlaunaleikstjórinn Alex Gibney hefur nú unnið heimildarmynd um þessi voðaverk, No Stone Unturned. Frumsýna átti myndina á Tribeca-kvikmyndahátíðinni í lok apríl en af því varð ekki vegna „lögfræðilegra deilna“ eins og sagt var í tilkynningu frá leikstjóranum.

Myndarinnar er beðið með mikilli eftirvæntingu því að margt er enn á huldu varðandi morðin og lögreglurannsóknina sem fylgdi. Nefnd sem rannsakaði eftirmál morðanna komst að þeirri niðurstöðu í fyrra að spilling innan lögreglunnar hefði verið stór þáttur í morðunum, aðdraganda þeirra og því sem eftir fór.

Greinin heldur áfram fyrir neðan myndskeiðið.

 Loughinisland er smábær. Íbúarnir eru aðeins um 600. Árið 1994 hafði bærinn að mestu sloppið við átök og óeirðir, atburði sem á ensku hafa verið kallaðir the Troubles. Í bænum höfðu bæði mótmælendur og kaþólikkar búið í sátt og samlyndi kynslóðum saman.

Allir þeir sem létust í árásinni á Heights-barnum voru kaþólikkar en það er af mörgum aðeins talið hafa verið tilviljun. Mótmælendur komu stundum þangað til að fá sér í glas og fylgjast með íþróttaleikjum.

Um 90 mínútum eftir árásina hringdi fulltrúi hreyfingar vopnaðra sambandssinna, Ulster Volunteer Force (UVF) í útvarpsstöð og lýsti því yfir að hún bæri ábyrgð á ódæðinu. Þessi samtök létu mikið að sér kveða í átökunum í landinu og er talið að þau beri ábyrgð á dauða um 500 manna, aðallega kaþólikka. Blóðbaðið á barnum var sagt hefndaraðgerð vegna drápa Írska lýðveldishersins á þremur liðsmönnum samtakanna.

Morðin í Loughinisland vöktu af þessum sökum mikinn óhug og samúðaróskum rigndi inn, m.a. frá Bill Clinton, þáverandi forseta Bandaríkjanna, Jóhannesi Páli páfa og Elísabetu Englandsdrottningu.

Við upphaf lögreglurannsóknarinnar lofaði lögreglan á Norður-Írlandi því að „hverjum steini yrði velt við“ svo að finna mætti morðingjana.

Liðsmenn skæruliðahreyfingarinnar Ulster Volunteer Force (UVF). Samtökin sögðust bera ábyrgð …
Liðsmenn skæruliðahreyfingarinnar Ulster Volunteer Force (UVF). Samtökin sögðust bera ábyrgð á ódæðinu. Enginn hefur nokkru sinni verið ákærður fyrir fjöldamorðin. Af Wikipedia

Daginn eftir að morðin voru framin fannst bíllinn sem morðingjarnir höfðu notað til að komast undan. Honum hafði verið lagt á akri skammt frá bænum. Bíllinn var mannlaus. Að koma höndum yfir slíkt sönnunargagn var nokkuð sjaldgæft á þessum átakatímum í landinu. Skæruliðarnir kveiktu yfirleitt í bílum sínum og spilltu þar með sönnunargögnum. Lögreglan kom á vettvang til að sækja bílinn. Engin rannsókn var hins vegar gerð á vettvangi umhverfis bifreiðina. Nokkrum vikum síðar fannst taska undir brú skammt frá þeim stað þar sem bíllinn hafði verið skilinn eftir. Í henni voru samfestingar, hanskar, skammbyssur og skot. Ekki langt undan fannst svo riffill sem síðar var staðfest að hafi verið notaður í árásinni á barnum sem og fleiri árásum af hálfu skæruliðahreyfingarinnar.

Á næstu mánuðum handtók lögreglan níu manns og yfirheyrði. Öllum var sleppt án ákæru. Síðar voru þrír til viðbótar handteknir en þeim var einnig sleppt án ákæru. Áfram hélt lögreglan að reyna að sannfæra fjölskyldur fórnarlambanna um að hún myndi gera allt sem í hennar valdi stæði til að upplýsa málið.

Hverjum steini yrði velt við.

Fórnarlömb fjöldamorðsins: Daniel McCreanor (59 ára), Adrian Rogan (34 ára), …
Fórnarlömb fjöldamorðsins: Daniel McCreanor (59 ára), Adrian Rogan (34 ára), Malcolm Jenkinson (52 ára), Eamon Byrne (39 ára), Patrick O'Hare (35 ára) og Barney Greene (87 ára).

En árin liðu. Og ekkert miðaði í rannsókninni. Tvær grímur fóru að renna á ástvini hinna látnu. Þegar skýrsla um lögreglurannsóknina var gefin út árið 2011 áttuðu þeir sig á því að lögreglan „hafði komið fram við okkur eins og sveppi, haldið okkur í myrkrinu og fóðrað okkur með bulli,“ sagði dóttir eins fórnarlambsins við Guardian árið 2012. Þá þegar voru að koma í ljós miklir brestir í rannsókn málsins. Rannsókn á sönnunargögnum var mjög ábótavant. DNA-sýni voru ekki tekin af hinum handteknu, ekki einu sinni fingraför. Þá var orðið ljóst á þessum tíma að uppljóstrarar lögreglunnar úr röðum skæruliða, m.a. manna sem voru í samtökunum sem báru ábyrgð á ódæðinu, tengdust bílnum en voru aldrei handteknir. Þá var bíllinn rifinn niður í brotajárn þar sem hann tók „of mikið pláss“ í geymslum lögreglunnar.

Fjölskyldurnar höfnuðu niðurstöðum skýrslu um lögreglurannsóknina sem kom út árið 2011 og sögðu hana hvítþvo lögregluna. Þær fóru fram á að önnur rannsókn yrði gerð. Nýr umboðsmaður lögreglumála  réðst í framhaldinu í gerð annarrar skýrslu og kom hún út í fyrra.

Niðurstaða hennar var sú að spilling innan lögreglunnar hafi haft áhrif á allt málið, frá upphafi til enda. Í henni kom meðal annars fram að uppljóstrari lögreglunnar úr röðum skæruliðanna hafði tekið þátt í innflutningi á vopnunum sem notuð voru í morðunum í Loughinisland. Sérsveit lögreglunnar, sem einbeitti sér að átökunum í landinu, hafði brugðist í því að koma upplýsingum um þessa vopnaflutninga áleiðis.

Michael Maguire, umboðsmaður lögreglumála, sagði í sinni niðurstöðu að hlífiskildi hefði vísvitandi verið haldið yfir uppljóstrurum. Sá gjörningur, aðgerðaleysi, grundvallarmistök í upphaflegu lögreglurannsókninni og eyðilegging lögregluskýrslna, sanni spillingu lögreglunnar. „Þegar þetta er skoðað í samhengi hika ég ekki við að segja að spilling var stór þáttur í Loughinisland-morðunum.“

Enn hefur enginn verið dreginn til ábyrgðar fyrir blóðbaðið á Heights-barnum. „Fólkið sem lét lífið í þessu herbergi vissi ekkert um [átökin í landinu] og samt var því slátrað,“ segir dóttir eins fórnarlambsins.

Vonast er til þess að sá lögfræðilegi ágreiningur sem stendur um heimildarmynd Gibneys leysist sem fyrst. Myndin er talin geta varpað enn frekara ljósi á atburðina. Í lýsingu á henni segir: „Í þessari sönnu morðsögu lýkur Óskarsverðlaunaleikstjórinn Alex Gibney málinu upp að nýju og rannsakar af hverju enginn var dreginn til saka.“

Byggt á greinum Guardian, Reuters og BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert