Le Pen viðurkennir ósigur

Emmanuel Macron, sem útlit er fyrir að hafi hlotið yfirburðakosningu sem næsti forseti Frakklands, hringdi nú í kvöld í mótframbjóðanda sinn Marine Le Pen og áttu þau vinsamlegar samræður að sögn APF-fréttastofunnar. Le Pen viðurkenndi skömmu síðar ósigur í kosningunum og óskaði Macron góðs gengis.

Hún kvaðst hins vegar mundu leiða flokk sinn, frönsku Þjóðfylkinguna, í komandi þingkosningunum í næsta mánuði.

Útgönguspár benda til þess að Macron hafi hlotið um 66% atkvæða en Le Pen um 34%, sem er töluvert minna en henni hafði verið spáð. Macron verður þar með fyrsti forsetinn í sögu Frakklands sem fær meira en 60% atkvæða.

15 fjölmiðlar og fréttastofur greindu frá því í dag að þeim hefði verið bannaður aðgangur að kosningavöku Le Pen, sem var frambjóðandi frönsku Þjóðfylkingarinnar. Í yfirlýsingu frá Þjóðfylkingunni segir að fjölmiðlunum hafi verið vísað frá vegna plássleysis í danssal í Vincennes, sem er austur af París.

Í kjölfarið tilkynntu Bloomberg-fréttastofan og dagblöðin Le Monde, Liberation og L‘Humanite að þau myndu sniðganga kosningavökuna til að sýna „samstöðu“ með öðrum miðlum.

„Í samstöðu með félögum okkar hafa ritstjórar Liberation ákveðið að mæta ekki,“ sagði Johan Hufnagel, aðstoðarritstjóri blaðsins, og kvað ákvörðun Þjóðfylkingarinnar að banna fjölmiðlum þátttöku vera „andlýðræðislega“.

Marine Le Pen á kjörstað í morgun. Hún viðurkenndi ósigur …
Marine Le Pen á kjörstað í morgun. Hún viðurkenndi ósigur nú í kvöld. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert