Ætlar að berjast gegn klofningi í frönsku samfélagi

„Ég mun vinna að því að endurnýja tengslin milli Evrópu og íbúa álfunnar,“ sagði Emmanuel Macron, nýkjörinn forseti Frakklands, í sigurræðu sinni í höfuðstöðvum En Marche! hreyfingar nú í kvöld.

Macron sagði úrslitinn vera mikinn heiður en að þeim fylgdi líka mikil ábyrgð.

Kvaðst Macron þannig vera meðvitaður um reiði margra kjósenda. Hann myndi þó sigrast á öllum hindrunum á leið sinni til að „skapa betri framtíð“ og berjast gegn þeim klofningi sem nú græfi undan frönsku samfélagi.

Macron hét því enn fremur að vernda þá þjóðfélagsþegna sem veikast standa að vígi. 

„Það er skylda mín að draga úr ótta og endurnýja bjartsýni,“ sagði forsetinn nýkjörni.

„Nýr kafli er að hefjast í sögu okkar. Ég vil að það sé kafli vonar og endurnýjaðs trausts.“ 

Segir Frakka verða í fararbroddi í baráttunni gegn hryðjuverkum

Þá hét Macron því að verja Frakkland gegn árásum íslamskra hryðjuverkamanna, en 230 manns hafa látist í hryðjuverkaárásum í Fraklandi frá 2015.

„Frakkland mun verða í fararbroddi í baráttunni gegn hryðjuverkum,“ sagði hann.

Macron hlaut í dag yfirburðakosningu, þrátt fyrir að kjörsókn væri minni en í síðustu forsetakosningum. Skoðanakannanir bentu til þess að Macron fengi um 60% atkvæða en mótframbjóðandi hans Marine Le Pen 40%. Útlit er hins vegar nú fyrir að Macron hafi fengið um 66% atkvæða en Le Pen 34%. Er Macron fyrstur franskra forseta til að fá atkvæði meira en 60% þeirra sem mættu á kjörstað.

Tvisvar í ræðu sinni í dag vísaði Macron þá til þeirrar hættu sem Frakklandi stafaði af loftslagsbreytingum og þeirri hættu sem vistkerfi jarðar stafar af gróðurhúsaáhrifunum.

Trump hlakkar til að vinna með Macron

Hafa stjórnmálaspekingar haft orð á því að Macron hafi komi fyrir sem skynsamur og alvarlegur í ræðu sinni, sem sé ólíkt því sem einkenndi fyrstu orð Francois Hollande, núverandi forseta, er tilkynnt var um sigur hans.

Hamingjuóskunum hefur rignt yfir Macron frá því að tilkynnt var um kjör hans og hafa leiðtogar Evrópusambandsins fagnað kosningu hans. 

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur líka tjáð sig um kjör Macrons og líkt og svo oft áður nýtti Trump sér samfélagsmiðilinn Twitter til verksins. 

„Hamingjuóskir til Emmanuel Macron með stórsigur hans í dag sem næsti forseti Frakklands,“ sagði Trump á Twitter. „Ég hlakka mikið til að vinna með honum!“ 

Emmanuel Macron í höfuðstöðvum En Marche! hreyfingarinnar í kvöld. Kvaðst …
Emmanuel Macron í höfuðstöðvum En Marche! hreyfingarinnar í kvöld. Kvaðst hann ætla að berjast gegn þeirri gjá sem hefði myndast meðal Frakka. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert