Norður-Kóreumenn skulda Svíum 1.000 Volvo-bíla

Volvo á ferð í höfuðborg Norður-Kóreu, Pyongyang.
Volvo á ferð í höfuðborg Norður-Kóreu, Pyongyang. Skjáskot/YouTube

Árið 1974 sendu stjórnvöld í Norður-Kóreu pöntun til Svíþjóðar sem hljóðaði upp á 1.000 bifreiðar af gerðinni Volvo 144 auk nokkurra annarra vara frá sænskum framleiðendum, þar á meðal mjaltakerfarisanum Alfa Laval. Svíar sendu Volvo-bifreiðarnar og afganginn af hinu pantaða umyrðalaust og létu fylgja með reikning upp á 600 milljónir sænskra króna.

Af þeirri upphæð greiddi stjórn Kim Il-sung ekki eina krónu og stendur skuldin nú í 2,7 milljörðum, jafnvirði 32,5 milljarða íslenskra króna, en sjá má fjölda virðulegra Volvo 144 af 1974 árgerð á götum Pyongyang og annarra borga Norður-Kóreu enn þann dag í dag.

Forsaga málsins er sú að við lok Kóreustríðsins árið 1953 var Svíþjóð fyrsta vestræna ríkið til að viðurkenna alþýðulýðveldið Norður-Kóreu en Svíar sáu sér þar leik á borði að stofna til vöruviðskipta við Norður-Kóreumenn, nokkuð sem nú hefur komið í ljós að var hörmulegur afleikur.

Pak Yun Sik, fulltrúi norðurkóreska utanríkisráðuneytisins gagnvart Skandinavíu, ekur sér vandræðalega í stólnum þegar Susan Ritzén, Asíufréttaritari sænska ríkisútvarpsins SVT, nær tali af honum og rifjar málið upp. Sik bendir á að Norður-Kórea hafi átt við ramman reip að draga í fjármálum sínum á áttunda áratugnum og því ekki getað brugðist við rukkunum Svía sem samviskusamlega hafa sent innheimtubréf til Norður-Kóreu tvisvar á ári í 43 ár.

Málin líta þó töluvert betur út í dag, eftir því sem Sik bendir á, og Norður-Kóreumenn séu meira en tilbúnir í samstarf og viðskipti við Svía á sem flestum sviðum. „En fá Svíar greitt fyrir Volvo-bílana þúsund?“ spyr fréttaritarinn. „Ég er viss um að ef við eflum samstarfið á sviði fjármála og menningar við Svía verði þetta vandamál úr sögunni í framtíðinni,“ segir Pak Yun Sik að skilnaði við sænska ríkisútvarpið og vonar án efa af heilum hug að hann þurfi ekki að svara oftar fyrir Volvo-skuldina.

Frétt Norska ríkissjónvarpsins

Frétt Sænska ríkissjónvarpsins

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert