Óttast kólerufaraldur í Jemen

Kona með barn sitt, sem talið er smitað af kóleru, …
Kona með barn sitt, sem talið er smitað af kóleru, á sjúkrahúsi í höfuðborg Jemen, Sanaa. AFP

Grunur leikur á að í það minnsta 570 manns hafi smitast af kóleru í hinu stríðshrjáða landi Jemen á síðustu þremur vikum. Mannúðarsamtökin Læknar án landamæra óttast faraldur.

Frá því átökin í Jemen brutust út fyrir nokkrum misserum hefur heilbrigðiskerfið nær hrunið til grunna. Rafmagn er einnig óstöðugt í landinu og á sumum svæðum hefur verið rafmagnslaust mánuðum saman. Erfitt hefur reynst að koma nauðsynlegum lyfjum og öðrum lækningavörum á sjúkrahús. Þá hefur fjölmörgum sjúkrahúsum verið lokað. Opinberir starfsmenn hafa oft og tíðum ekki fengið greidd laun og hafa því lagt niður störf.

Í landinu takast á stuðningsmenn forsetans, sem njóta stuðnings bandalagsríkja með Sádi-Araba í broddi fylkingar, og uppreisnarmenn Húta, vopnaðra samtaka í norðurhluta landsins. 

Milljónir íbúa landsins eru án hreins drykkjarvatns. Þá vofir hungursneyð yfir og þúsundir barna eru alvarlega vannærð.

Við þessar aðstæður skapast mikil hætta á sjúkdómafaröldrum, m.a. kólerufaraldri. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert