Ellefu látnir og 200 saknað

Þessi mynd var tekin af flóttamönnum á gúmmíbáti í nóvember …
Þessi mynd var tekin af flóttamönnum á gúmmíbáti í nóvember í fyrra. AFP

Ellefu flóttamenn eru látnir og tæplega tvö hundruð er saknað eftir að tveir bátar sukku í Miðjarðarhafinu undan ströndum Líbýu. Þetta hefur flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna eftir fólki sem komst í land.

Fyrri báturinn lagði af stað frá Líbíu snemma á föstudaginn með 132 flóttamenn um borð. Báturinn byrjaði að leka nokkrum klukkustundum síðar og eftir það hvolfdi honum.

Danska skipið Alexander Maersk bjargaði 50 manns úr sjónum og flutti fólkið til Sikileyjar.

Lík tíu kvenna og eins barns fundust á strönd í Zawiya, fimmtíu kílómetrum vestur af Trípólí, höfuðborg Líbýu.

Í gær var síðan sjö flóttamönnum, einni konu og sex mönnum, bjargað af líbýskum sjómönnum og strandgæslunni undan ströndum Trípólí.

Talið er að minnsta kosti 120 manns hafi verið um borð í bátnum, þar af 30 konur og níu börn.

Samtals var rúmlega 6.000 flóttamönnum bjargað á föstudag og laugardag undan ströndum Líbýu. Flestir voru þeir fluttir til Ítalíu en nokkur hundruð voru flutt aftur til Líbíu.

Fólki sem hefur yfirgefið Líbíu á þessu ári í von um betra líf í Evrópu hefur fjölgað um næstum 50 prósent frá því á sama tíma í fyrra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert