Kólera og hungursneyð

Barn liggur á sjúkrarúmi á spítalagangi þar sem veikir fá …
Barn liggur á sjúkrarúmi á spítalagangi þar sem veikir fá aðhlynningu vegna kóleru. AFP

Þrjátíu og fjórir hafa látist af völdum fylgikvilla kóleru í Jemen og fleiri en 2.000 eru taldir hafa veikst af sjúkdómnum á síðustu tveimur vikum, að sögn talsmanns Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar.

Um er að ræða aðra öldu kólerutengdra dauðsfalla í Jemen á þessu ári, þar sem sjúkrahús hafa eyðilagst í yfirstandandi átökum og milljónir hafa ekki aðgengi að hreinu vatni né mat.

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur sett Jemen í hóp með þeim ríkjum þar sem mannúðarástandið er verst í heiminum. Hin ríkin eru Sýrland, Suður-Súdan, Nígería og Írak.

Átökin í Jemen hafa stigmagnast síðastliðin tvö ár en þar berst stjórnarherinn, sem nýtur stuðnings Sádi Arabíu, gegn Huthi-uppreisnarmönnum, sem njóta stuðnings stjórnvalda í Íran.

Sameinuðu þjóðirnar, sem segja ástandið hvergi verra en í Jemen, segja fleiri en 7.000 hafa fallið í átökunum frá 2015 og þrjár milljónir íbúa á vergangi.

Þá er talið að 17 milljónir manna þjáist af fæðuskorti og þriðjungur héraða landsins séu á barmi hungursneyðar.

Rusl á götum höfuðborgarinnar Sanaa.
Rusl á götum höfuðborgarinnar Sanaa. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert