Stefnir í stórsigur Moon

Moon Jae-In tekur sjálfsmyndir með kjósendum í dag.
Moon Jae-In tekur sjálfsmyndir með kjósendum í dag. AFP

Samkvæmt sameiginlegri útgönguspá þriggja suðurkóreskra sjónvarpsstöðva vann vinstrimaðurinn Moon Jae-In yfirburðasigur í forsetakosningunum í Suður-Kóreu sem fram fóru í dag. Hlaut Moon 41,4% atkvæða en íhaldsmaðurinn Hong Joon-Pyo 23,3% og miðjumaðurinn Ahn Cheol-Soo 21,8%.

Þegar hann greiddi atkvæði í dag sagðist Moon skynja sterkan vilja fólksins til breytinga. „Það getum við aðeins raungert með því að kjósa,“ sagði hann.

Kjördagar eru jafnan frídagar í Suður-Kóreu og gert var ráð fyrir metkjörsókn en klukkustund áður en kjörstaðir lokuðu höfðu 75,1% kjósenda greitt atkvæði.

Kim Sun-Chul, 59 ára, sagðist hafa greitt Moon atkvæði sitt þar sem skjóta þyrfti stoðum undir lýðræðið eftir valdatíð Park Geun-Hye, sem vikið var úr embætti vegna spillingar. Hinn 72 ára læknir Chung Tae-Wan sagðist hins vegar hafa kosið Hong vegna öryggismála.

Kosningabaráttan snérist aðallega um efnahagsmálin en Moon hefur talað fyrir því að draga úr spennu á Kóreuskaganum og sagst viljugur til að funda með Kim Jong-Un, leiðtoga Norður-Kóreu, og freista þess að hefja á ný nokkur sameiginleg verkefni ríkjanna.

Stuðningsmenn Moon Jae-In á baráttufundi í gær.
Stuðningsmenn Moon Jae-In á baráttufundi í gær. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert