Xi og Macron sammála en óvíst um Trump

Á sama tíma og Frakkar og Kínverjar hyggjast vinna saman …
Á sama tíma og Frakkar og Kínverjar hyggjast vinna saman að framkvæmd Parísarsamkomulagsins er óvíst að Bandaríkjamenn hyggist standa við sitt. AFP

Xi Jinping, forseti Kína, hét því í dag að standa vörð um Parísarsamkomulagið um aðgerðir í loftslagsmálum þegar hann ræddi við Emmanuel Macron, nýkjörinn forseta Frakklands, í síma.

Forsetinn sagði Kínverja ávallt hafa talið Frakka meðal sinna helstu bandamanna og þeir styddu áframhaldandi sameiningu Evrópu. Voru Xi og Macron sammála um að funda hið fyrsta.

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur lýst efasemdum um Parísarsamkomulagið. Til stóð að hann fundaði með ráðgjöfum í loftslags- og efnahagsmálum í dag til að ræða þann möguleika að Bandaríkjamenn segðu sig frá samkomulaginu en fundinum hefur verið frestað.

Samkomulagið miðar að því að takmarka loftslagsbreytingar með því að draga úr brennslu jarðefnaeldsneytis. Samningamenn eru að störfum í Bonn og freista þess að smíða drög að leiðbeiningum fyrir þau ríki sem hafa undirritað samkomulagið. Sá möguleiki að Bandaríkin kunni að segja sig frá samkomulaginu hefur hins vegar valdið nokkurri óvissu.

Stjórnvöld í Kína hafa kallað eftir því að Bandaríkjamenn standi við skuldbindingar sínar. Hafa umskipti síðustu missera vakið spurningar um hvort Kínverjar kunni að taka við leiðtogahlutverki Bandaríkjanna í loftslagsbaráttunni.

Stjórnvöld í Kína hafa hvatt Bandaríkjamenn til að standa við …
Stjórnvöld í Kína hafa hvatt Bandaríkjamenn til að standa við skuldbindingar sínar. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert