„Var hann rekinn? Þú ert að grínast“

„Var hann rekinn? Þú ert að grínast,“ sagði Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, þegar hann var inntur eftir viðbrögðum við brottrekstri James Comey, forstjóra bandarísku alríkislögreglunnar, í dag.

Samkvæmt blaðamanni Guardian, sem var viðstaddur þegar ummælin féllu, var ráðherrann að vera kaldhæðinn.

Lavrov er staddur í opinberri heimsókn í Bandaríkjunum og stillti sér upp fyrir blaðamenn og ljósmyndara ásamt utanríkisráðherranum bandaríska, Rex Tillerson. Greint hefur verið frá því að Lavrov muni hitta Donald Trump Bandaríkjaforseta í dag en tímasetningin þykir furðuleg í ljósi brottrekstrar Comey í gær.

Lavrov og Tillerson funduðu í utanríkisráðuneytinu í dag og gáfu …
Lavrov og Tillerson funduðu í utanríkisráðuneytinu í dag og gáfu ljósmyndurum færi á að smella af myndum. AFP

Fréttirnar af Comey hafa vakið hörð viðbrögð stjórnmálamanna og stjórnmálaskýrenda. Alríkislögreglan hefur til rannsóknar tengsl kosningateymis Trump við Rússland og þó Comey hafi ekki beinlínis farið fyrir rannsókninni er ljóst að eftirmaður hans mun hafa vald til að annaðhvort hamla eða greiða fyrir störfum rannsóknarmanna.

Gert er ráð fyrir að tilkynnt verði um eftirmann Comey í þessari viku. Þrátt fyrir að hann hafi ekki notið vinsælda í Washington, ekki síst fyrir það hvernig hann höndlaði rannsókn alríkislögreglunnar á tölvupóstmálum Hillary Clinton, virðast flestir sammála um að upp gefnar ástæður brottrekstarins haldi ekki vatni.

Talsmenn Trump virðast ekki á einu máli um það hver átti frumkvæðið að uppsögninni, Trump sjálfur eða aðstoðardómsmálaráðherrann Rod Rosenstein. Í uppsagnarbréfinu er vísað til tölvupóstsmálsins en Trump fagnaði hins vegar á sínum tíma framgöngu Comey, sem margir segja hafa kostað Clinton forsetaembættið.

Í fjölmiðlum vestanhafs og raunar beggja vegna Atlantshafsins er haft eftir stjórnmálamönnum og -skýrendum að upp sé komin veruleg krísa, þar sem Bandaríkjaforseti virðist ryðja þeim úr vegi sem kunna að leggja stein í götu hans.

Demókratar og nokkrir repúblikanar hafa sagt nauðsynlegt að skipa óháðan aðila til að rannsaka tengsl ráðgjafa Trump við Rússland; trúverðugleiki Bandaríkjanna sé í húfi. Þá hefur verið kallað eftir því að Comey, Rosenstein og dómsmálaráðherrann Jeff Sessions verði kallaðir fyrir þingnefnd.

Trump hefur farið mikinn á Twitter í dag og verið iðinn við að svara gagnrýnendum sínum.

Uppsagnarbréfið.
Uppsagnarbréfið. Tekið af vef CNN.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert