Lífstíðarfangelsi fyrir dráp á 20 hermönnum

Frá Homs.
Frá Homs. AFP

Maðurinn, sem er 27 ára gamall, var ákærður fyrir að hafa skotið til bana óvopnaða eða særða hermenn í kjölfar bardaga í borginni Homs. Maðurinn, sem ekki hefur verið nafngreindur, neitar sök. Hann var handtekinn í vesturhluta Austurríkis í júní í fyrra, segir í frétt BBC.

Talið er að þetta sé í fyrsta skipti er mál sem tengist stríðsglæpum í Sýrlandi sé tekið fyrir í dómsal í Austurríki. Dómurinn var kveðinn upp í Innsbruck. 

Fyrri fréttir austurrískra fjölmiðla af málinu herma að maðurinn hafi greint öðrum hælisleitendum frá því í miðstöð flóttamanna að hann hafi skotið til bana hermenn í stjórnarhernum þegar hann barðist með sveit uppreisnarmanna sem nefnist Farouq Brigade og er tengd hernaðarbandalagi stjórnarandstæðinga (Free Syrian Army).

Lögmenn hans segja að frásögn mannsins af atvikum mála hafi verið rangtúlkuð í þýðingu og hann muni væntanlega áfrýja dómnum.

Samkvæmt frétt Der Standard er hann Palestínumaður án ríkisfangs sem ólst upp í flóttamannabúðum í Homs.

Rannsókn á málinu hófst eftir að yfirvöld fréttu af ummælum hans um hvað hafði gerst í Sýrlandi. Ekki er hægt að framselja hann til Sýrlands þar sem þar ríkir stríð en dráp á særðum hermanni er bannað samkvæmt Genfar-sáttmálanum. Yfirvöld í Austurríki segja að drápin megi skilgreina sem hryðjuverk og jafnvel væri hægt að saksækja hann hjá alþjóðlegum hryðjuverkadómstól. 

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert