Skyndiákvörðun eða uppsafnað ergelsi?

James Comey hefur hvatt fyrrverandi samstarfsmenn sína til að vera …
James Comey hefur hvatt fyrrverandi samstarfsmenn sína til að vera ekki að velta sér upp úr öllu saman og halda frekar áfram að vernda bandarísku þjóðina. AFP

Embættismenn Hvíta hússins neituðu bandarískum blaðamönnum og ljósmyndurum að vera viðstaddir fund Donald Trump Bandaríkjaforseta, Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, og Sergey I. Kislyak, sendiherra Rússlands í Washington, en ljósmyndara rússnesks ríkisfjölmiðils var hins vegar hleypt inn í helgidóm bandaríska forsetaembættisins og myndirnar birtar í Rússlandi.

Bandarískum fjölmiðlum þótti fundurinn og skipulagið allt stórkostlega undarlegt, strax í kjölfar uppsagnar forstjóra alríkislögreglunnar, sem hefur til rannsóknar samskipti kosningateymis Trump við Rússa og m.a. fundi ráðgjafa hans með sendiherranum Kislyak.

Í fyrstu var ástæða uppsagnarinnar sögð framganga James Comey í tengslum við tölvupóstmál Hillary Clinton og ákvörðunin rakin til ráðlegginga Rod Rosenstein aðstoðardómsmálaráðherra. Þegar Rosenstein sá hvernig spilaðist úr málum hugnaðist honum hins vegar ekki að vera gerður að blóraböggli í málinu og hótaði að segja upp.

Höfuðstöðvar FBI í Washington. Heimildarmenn innan alríkislögreglunnar segja framgöngu Hvíta …
Höfuðstöðvar FBI í Washington. Heimildarmenn innan alríkislögreglunnar segja framgöngu Hvíta hússins seint gleymast og stofnunin muni svara fyrir sig í fyllingu tímans. AFP

Samkvæmt Washington Post, sem hefur átt fjölda samtala við heimildarmenn innan Hvíta hússins, er sannleikurinn sá að reiði Trump gagnvart Comey hafði vaxið dag frá degi en í hvert sinn sem sá síðarnefndi tjáði sig opinberlega óttaðist Trump að umræðuefnið yrði Rússland.

Trump hafði lengi efast um tryggð Comey og dómgreind, og þá var forsetinn argur vegna þess hversu miklum tíma hann varði í Rússlandsrannsóknina í stað þess að taka á lekum innan stjórnkerfisins til blaðamanna.

Af hverju kom Sessions að málinu?

Samkvæmt Washington Post kallaði Trump helstu samverkamenn sína til fundar á mánudag og hafði þá þegar ákveðið að láta Comey fjúka. Meðal þeirra sem hann ráðfærði sig við voru varaforsetinn Mike Pence, starfsmannastjórinn Reince Priebus og hinn umdeildi Stephen K. Bannon.

Flestir virðast sammála um að málið sé öllu alvarlega en …
Flestir virðast sammála um að málið sé öllu alvarlega en Trump virðist gera sér grein fyrir. AFP

Þá voru fyrrnefndur Rosenberg og dómsmálaráðherrann Jeff Sessions boðaðir til fundar en Trump fól þeim að hamra saman skrifleg rök fyrir því að reka Comey. Á þriðjudag reiddi forsetinn til höggs en Washington Post segir þeirri spurningu ósvarað hvers vegna Sessions átti þátt að máli þegar hann hafði þegar sagt sig frá Rússlandsrannsókinni eftir að hafa logið eiðsvarinn um samskipti sín við sendiherrann rússneska.

Önnur spurning sem enn hangir í loftinu er að hversu miklu leyti nýliðnir atburðir, t.d. vitnisburður Sally Yates, fyrrverandi dómsmálaráðherra, um afskipti Rússa og beiðni Comey um auknar fjárveitingar frá dómsmálaráðuneytinu vegna Rússlandsrannsóknarinnar höfðu áhrif á ákvörðun Trump.

Uppsögnin hefur vakið mikla reiði og hneykslun innan dómsmálaráðuneytisins og alríkislögreglunnar en Thomas O'Connor, forseti bandalags alríkislögreglumanna, sagði hana ófyrirséða og tilefnislausa. Þá hefur Washington Post eftir mörgum starfsmönnum FBI að uppsögnin hefði gert meira til að skaða sjálfstæði stofnunarinnar en nokkuð sem Comey gerði á þeim þremur árum sem hann var forstjóri.

Trump lét Sally Yates fjúka eftir að hún gaf undirmönnum …
Trump lét Sally Yates fjúka eftir að hún gaf undirmönnum sínum fyrirmæli um að reyna ekki að verja umdeilda innflytjendatilskipun forsetans fyrir dómstólum. AFP

Ákvörðun Trump mætti lítilli andstöðu innan Hvíta hússins en hið mikla fjaðrafok sem varð í kjölfarið má ekki síst rekja til þess að fáir vissu hvað var í uppsiglingu og virðist fjömiðlateymi forsetans til að mynda ekki hafa fengið að vita af uppsögninni fyrr en á síðustu stundu.

„Lítillega flökurt“

Engin áætlun lá fyrir um það hvernig ákvörðunin yrði tilkynnt eða réttlætt og þá vanmátu menn hversu harkalega uppsögninni yrði mótmælt af demókrötum, sem sjálfir áttu harma að hefna gagnvart Comey vegna ósigurs Hillary Clinton í kosningunum.

„Þú getur ekki verið leikstjórnandi liðsins ef liðið er ekki með þér í þyrpingunni,“ sagði Newt Gingrich um það hvernig spilaðist úr málum í fjölmiðlum og vísaði þar til þess hvernig fjömiðlafólk Trump virtist algjörlega úti á þekju þegar spurningar blaðamanna dundu á því.

Mótmælendur söfnuðust saman við Trump Tower í New York í …
Mótmælendur söfnuðust saman við Trump Tower í New York í gær og kölluð eftir því að forsetinn tæki pokann sinn og Comey yrði kallaður fyrir þingnefnd. AFP

Reuters hefur sagt frá því að Trump hyggist heimsækja höfuðstöðvar alríkislögreglunnar á næstu dögum. Samkvæmt heimildum fréttaveitunnar var ákvörðunin um að reka Comey tekin þegar hann neitaði að upplýsa ráðgjafa forsetans um það hvað hann hygðist segja þegar hann kæmi fyrir þingnefnd 3. maí sl. til að ræða framgöngu sína í tölvupóstmálinu.

Comey sat fyrir þingnefndinni í fjóra tíma og sagði m.a. að honum yrði lítillega flökurt þegar hann hugsaði til þess að ákvörðun hans um að greina frá því að hann ætlaði að opna aftur rannsóknina á málinu gegn Clinton hefði mögulega ráðið úrslitum í forsetakosningunum.

Trump hefur farið mikinn við að verja ákvörðun sína á Twitter en þegar blaðamenn spurðu hann hvers vegna hann lét Comey fjúka sagði hann einfaldlega að forstjórinn hefði ekki verið að standa sig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert