12 ára fær að hafna lyfjameðferð

AFP

Tólf ára gamall hollenskur drengur, sem glímir við heilaæxli, hefur rétt á að hafna lyfjameðferð, samkvæmt niðurstöðu dómstóls í Alkmaar. Gengur það gegn vilja föður drengsins sem krafðist þess að hann færi í lyfjameðferð.

Drengurinn, David, en fullt nafn hans hefur ekki verið gefið upp, greindist með heilaæxli í nóvember. David fór í skurðaðgerð og meinið fjarlægt. Eftir það fór hann í geislameðferð og í kjölfarið því lýst yfir að hann væri laus við meinið. 

Samkvæmt dómnum sem kveðinn var upp í morgun mæltu læknar með því að hann færi í lyfjameðferð í kjölfarið en David vildi ekki frekari meðferðir og naut stuðnings móður sinni við þá ákvörðun. 

Samkvæmt hollenskum fjölmiðlum vildi drengurinn frekar prófa óhefðbundnar lækningar og höfðaði faðir hans mál, foreldrar hans eru skilin, gegn barnaverndaryfirvöldum og taldi að beita ætti þvingunarúrræðum svo drengurinn færi í lyfjameðferð líkt og læknar mæltu með. 

Síðan David hafnaði lyfjameðferð hefur hann gengið til barnasálfræðinga og er það mat þeirra að David væri andlega hæfur og í góðu jafnvægi. Hann væri fullur lífsvilja en hefði áhyggjur af áhrifum aukaverkana af lyfjameðferðinni á hans daglega líf. 

Dómarinn sem kvað upp dóminn sagðist skilja áhyggjur föður drengsins en hann sæi samt ekki ástæðu til annars en að virða óskir Davids. 

David hafi rétt á að hafa með það að segja og hvað hann telji sér fyrir bestu. Hann geri sér grein fyrir hvaða afleiðingar það geti haft, þar á meðal neikvæðar. „Hann hefur sjálfsákvörðunarrétt jafnvel þó það geti reynst erfitt fyrir foreldrana,“ segir í niðurstöðu dómsins.

Dómarinn vitnaði einnig í hollensk lög um líknardauða en samkvæmt þeim mega langveik börn á aldrinum 12-18 ára sem þjást af banvænum sjúkdómum óska eftir aðstoð við að enda líf sitt. 

Faðir Davids ætlar að lesa dóminn áður en hann tekur ákvörðun um hvort hann áfrýji niðurstöðunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert