Tekst honum það ómögulega?

Salvador Sobral syngur lag systur sinnar, Amar Pelos Dois.
Salvador Sobral syngur lag systur sinnar, Amar Pelos Dois. AFP

Fyrir nokkrum vikum þekkti enginn Salvador Sobral en nú er nafn hans á allra vörum, að minnsta kosti þeirra sem fylgjast með Eurovision. Verður það Sobral sem rýfur hefðina fyrir því að Portúgal sé ekki í efstu fimm sætum keppninnar?

Sobral, sem er 27 ára gamall hjartasjúklingur, syngur lag systur sinnar, Lusiu, Amar Pelos Dois  (Fyrir okkur bæði) í Eurovision. Í raun brýtur hann gegn öllu þessu venjulega í Eurovision. Hann syngur á portúgölsku en ekki ensku eins og flestir hinir og sleppir því að hoppa og skoppa um sviðið. Hann einfaldlega stendur á sviðinu og flytur lagið, svartklæddur, skeggjaður og með sítt hár.

„Ég hef engan áhuga á innantómri tónlist (fast food music). Söngur minn verður að hafa einhvern tilgang. Ég syng með hjartanu,“ segir Sobral sem er frá höfuðborg Portúgal, Lissabon. 

Salvador Sobral, fulltrúi Portúgal.
Salvador Sobral, fulltrúi Portúgal. AFP

Portúgal skipar þann vafasama sess að hafa aldrei unnið Eurovision og í raun hefur framlag Portúgal aldrei náð fimm efstu sætunum.

Hann háir nú harða baráttu við Francesco Gabbani sem syngur ítalska langið í ár um vinsældir veðbankanna. „Mér leið eins og ég væri jafnfrægur og Cristiano Ronaldo,“ segir Sobral í samtali við AFP. Hann tekur fram að þátttakan í Eurovision sé ekki eini tilgangur ferðalagsins til Úkraínu. 

Eftir undankeppnina á þriðjudagskvöldið hélt Sobral blaðamannafund þar sem hann hvatti til þess að fólk veitti flóttafólki aðstoð. 

„Þegar ég frétti að ég væri að fara að taka þátt í Eurovision var fyrsta hugsun mín tengd flóttafólki. Því það er neytt til þess að yfirgefa heimaland sitt til þess að forðast dauðann. Þetta fólk er ekki hefðbundnir innflytjendur,“ segir Sobral. 

Sobral getur sjálfur ekki farið neitt í burtu í meira en tvær vikur án lyfjameðferðar heima fyrir og hann tók ekki þátt í æfingum fyrr í vikunni vegna lélegrar heilsu. En hann hefur lítinn áhuga á að ræða veikindi sín þrátt fyrir að bíða enn eftir hjartaígræðslu. Hann segir sjúkdóminn aðeins vera smámál enda þurfi hann ekki að glíma við fleiri vandamál í lífinu ólíkt svo mörgum öðrum. 

Hann var uppgötvaður sem söngvari þegar hann keppti átján ára gamall í portúgölsku útgáfunni af American Idol árið 2009 og átti erfitt með að fóta sig í lífinu í kjölfar athyglinnar sem hann fékk.

Sobral lagði hljóðnemann á hilluna skömmu síðar og árið 2011 flutti hann frá Portúgal til Balear-eyja þar sem hann lagði stund á nám í sálfræði í gegnum Erasmus-skiptinemaprógrammið.

Á þessum tíma varð hann fíkninni að bráð og neytti eiturlyfja ótæpilega, meðal annars ofskynjunarsveppa. En honum tókst að lokum að vinna bug á fíkninni og fór að syngja á börum og hótelum á Mallorca. Þetta var ekki auðvelt en þetta borgaði sig, sagði hann nýverið í viðtali.

„Ég ætlaði að búa áfram á eyjunni en þegar ég sá að það var ekkert í gangi þar á veturna sá ég að ég yrði að gera eitthvað, taka einhverja ákvörðun,“ segir Sobral. 

Hann flutti því til Barcelona til að leggja stund á jazznám. Þar uppgötvaði hann Chet Baker, trompetleikarann sem Sobral segir sýna mestu fyrirmynd í tónlist.

Annað kvöld kemur í ljós hvort Baker verður með honum í anda en ljóst er að það eru margir sem vona að Sobral fari með sigur af hólmi og brjóti þar með þá hefð Portúgala að ganga illa í keppninni en Portúgal hefur verið með í Eurovision frá árinu 1964.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert