Biður um aftökusveit í stað lyfja

AFP

Fangi sem bíður aftöku í Georgíu í Bandaríkjunum hefur óskað eftir því að vera leiddur fyrir aftökusveit fremur en að fá banvæna sprautu því hann óttast að aftaka með lyfjagjöf reynist honum of kvalafull.

JW Ledford Jr hefur tekið lyf vegna taugapínu og segja lögmenn hans að lyfin hafi jafnvel breytt efnasamsetningu heilans. Lyfin sem notuð eru við aftökur geti því haft ófyrirsjáanlegar kvalir í för með sér fyrir fangann. Ledford var dæmdur fyrir morð á nágranna sínum árið 1992.

Dómari hafnaði beiðni fangans á föstudag en lögmenn hans segja að þeir muni áfrýja. Aftakan á að fara fram á þriðjudag. Ledford hefur notað lyfið gabapentin í meira en áratug. Vísa þeir í umsögn sérfræðinga um að langtímanotkun á gabapentin breyti heilastarfseminni á þann hátt að ekki sé öruggt að lyfið pentobarbital, sem er notað til þess að sljóvga fanga á dauðastundinni, hafi þau áhrif að hann missi meðvitund og skynjun.

Veruleg hætta sé á að Ledford verði fyrir því að þetta valdi því að lyfið ráðist á öndunarfæri hans og  komi í veg fyrir að súrefni komist til heila, hjarta og lungna og að hann kafni í eigin munnvatni.

Þetta brjóti gegn stjórnarskrárvörðum réttindum fangans (áttunda grein bandarísku stjórnarskrárinnar) sem kveðjur á um bann við ómannúðlegum og óvenjulegum refsingum.

Aðeins þrjú ríki í Bandaríkjunum heimila að fangar séu teknir af lífi af aftökusveitum. Það er sem annar valkostur í stað lyfjagjafar.  Það eru Mississippi, Oklahoma og Utah. Lög í Georgíu heimila ekki aðra möguleika við aftökur en lyfjagjöf en erfiðlega gengur að útvega lyf til að nota við aftökur enda hafa flest lyfjafyrirtæki bannað að framleiðsla þeirra sé notuð við aftökur. 

BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert