Hárígræðsluhöfuðborgin Istanbúl

Á meðan Jameel frá Pakistan dvelur í Istanbúl ætlar hann að heimsækja Bláu moskuna og Bosporussund, líkt og margir aðrir ferðamenn. Hann ætlar hins vegar að gera eitt sem er öllu óhefðbundnara; hann ætlar að láta græða í sig 1.500 hár, eitt í einu, en meðferðir við skalla njóta vaxandi vinsælda í tyrknesku höfuðborginni.

Borgin státar af 300 meðferðarmiðstöðvum sem sérhæfa sig í hárígræðslu og árlega sækir fjöldi „sjúklinga“ Istanbúl heim til að berjast gegn hármissi, flestir frá Mið-Austurlöndum og ríkjunum við Persaflóa.

Reyndir skurðlæknar, nýjasta tækni og tiltölulega hagstætt verð laða hárlausa að og vöxtur á þessu sviði síðustu ár hefur komið sér vel, þar sem dregið hefur úr áhuga erlendra ferðamanna á borginni eftir röð hryðjuverka árið 2016.

Í Istanbúl eru 300 meðferðarmiðstöðvar sem sérhæfa sig í hárígræðslu.
Í Istanbúl eru 300 meðferðarmiðstöðvar sem sérhæfa sig í hárígræðslu. AFP

„Ég kom til Tyrklands vegna hárígræðslunnar og til að ferðast um. Tyrkland hefur á sér gott orðspor þegar kemur að hárígræðslum,“ segir hinn 27 ára Jameel við AFP, eftir að hafa gengist undir aðgerðina.

Að sögn Faisal Abu Ahmad frá Sádi-Arabíu gekkst frændi hans undir hárígræðslu í Istanbúl og hann ákvað að gera hið sama. „Ört hárlos ýtti mér til þess að gangast undir aðgerðina. Ég var farinn að fá skallabletti,“ segir hann.

Tákn Istanbúl

Á vinsælum ferðamannastöðum á borð við Taksim-torg er erfitt að komast hjá því að taka eftir körlunum sem ganga um með rakað höfuð og umbúðirnar sem fylgja aðgerðinni. Mennirnir eru orðnir svo áberandi að íbúar Istanbúl gantast með það að þeir séu hið nýja tákn borgarinnar.

„Verðið er afar aðlaðandi. Hins vegar er næstmikilvægasta atriðið gæði meðferðarinnar,“ segir Talip Tastemel, framkvæmdastjóri Clinic Expert. „Tyrkland er komið langt hvað varðar lýtaaðgerðir og hárígræðslur þannig að sjúklingar eru að fá úrvalsmeðferð fyrir fjórðung venjulegs verðs,“ segir hann.

Á Taksim-torgi og öðrum vinsælum ferðamannastöðum má sjá menn með …
Á Taksim-torgi og öðrum vinsælum ferðamannastöðum má sjá menn með hárbönd frá hinum ýmsu meðferðarmiðstöðvum. AFP

Erlendum ferðamönnum stendur til boða að kaupa pakka sem samanstendur af meðferð, gistingu, samgöngum og afþreyingu. Fyrir 140 þúsund krónur fást þrír dagar í Istanbúl og hágæða meðferð, á sama tíma og aðgerðin ein og sér kostar allt að 690 þúsund krónur í Evrópu og litlu minna í Mið-Austurlöndum.

Aðgerðin felur í sér að agnarsmá hár eru fjarlægð af líkamssvæðum þar sem sjúklingurinn hefur góðan hárvöxt og grædd á svæði þar sem sjúklingurinn hefur misst hár. Aðgerðin tekur um 8 til 10 klukkustundir en það getur tekið hárin vikur eða mánuði að festa rætur og vaxa.

5.000 í hverjum mánuði

Emre Ali Kodan, ráðgjafi fyrir tyrknesku heilbrigðisferðaþjónustusamtökin, segir um 5.000 erlenda sjúklinga gangast undir hárígræðslu í hverjum mánuði. Flestir koma frá Mið-Austurlöndum, Sádi-Arabíu, Sameinuðu arabísku furstadæmunum og Katar.

„Við höfum sett sjónir okkar á 10% aukningu í hárígræðslum árið 2017. Það væri ekki draumur að ná 6.500 sjúklingum á mánuði,“ segir Kodan í samtali við AFP. Áhugi hefur aukist í Grikklandi, Ítalíu og Rússlandi.

„Þrátt fyrir samdrátt í ferðamannaiðnaðinum árið 2016 erum við að sjá 5% aukningu í heilbrigðisferðaþjónustu ef marka má tölfræðina,“ segir Kodan. Hann segir stefnt að því að tekjurnar af iðnaðinum nemi 7 milljörðum dala á þessu ári.

Lýtalæknar vinna að hárígræðslu.
Lýtalæknar vinna að hárígræðslu. AFP

Að sögn Tastemel hefur hárígræðslutúrisminn sýnt seiglu umfram aðra sprota ferðamannaiðnaðarins en heildartekjur greinarinnar drógust saman um 17% frá fyrra ári fyrstu þrjá mánuði ársins.

„Jafnvel þegar vandamál steðjuðu að ferðamannaiðnaðinum hafði það ekki mikil áhrif á heilbrigðistúrismann,“ segir Tastemel. „Við héldum áfram að framkvæma fjölda aðgerða jafnvel á krísutímabilinu.“

Bílar, úr og hár

Lyfjafræðingurinn Jameel segist hafa reynt ýmis lyf til að draga úr hárlosinu, án árangurs. „Á þessum aldri hefur það mikil áhrif á útlitið að missa hárið. Þess vegna ferðu að leita lausna þegar þú ferð að missa það,“ segir hann.

Að sögn Tastemel þurfa karlmenn að geta verið stoltir af hárinu sínu.

„Í fullri hreinskilni þá eru ekki margir fylgihlutir sem karlmenn geta skreytt sig með. Það eru aðallega bílarnir okkar, úrin og hárið,“ segir hann. „Við getum ekki notað farða. Útlit okkar ræðst aðallega af hárinu, þannig að þegar þú missir það þá er eins og eitthvað sé tekið af þér.“

Faisal stillir sér upp fyrir ljósmyndara AFP eftir aðgerð.
Faisal stillir sér upp fyrir ljósmyndara AFP eftir aðgerð. AFP

Clinic Expert býður upp á fjölda lýtaaðgerða en er aðallega í hárígræðslum. Tastemel segir árangurinn oftar en ekki góðan.

„Í læknisfræðum er ekki hægt að tryggja árangur og það má gera ráð fyrir að stundum mistakist. En í hárígræðslum er það í lágmarki,“ segir Tastemel. „Hver sem gengst undir aðgerðina hjá þokkalegri meðferðarmiðstöð hjá þokkalegum lækni, með þokkalegum aðferðum, má gera ráð fyrir 100% árangri.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert