Píanó-Pútín í Peking - myndband

Vladimir Pútín er ýmislegt til lista lagt.
Vladimir Pútín er ýmislegt til lista lagt. AFP

Vladimir Pútín Rússlandsforseti er þekktur fyrir að koma nakinn fram; það er ber að ofan, hvort sem er við veiðar eða útreiðar. Rússneska pressan hefur sýnt heiminum karlmannlega Pútín; bardagamanninn Pútín og íshokkíkappann Pútín, en nú hefur forsetinn sýnt á sér nýja hlið: píanó-Pútín.

Pútín settist niður við flygilinn í gær á meðan hann beið eftir Xi Jinping, forseta Kína, í Peking og spilaði nokkur lög frá barnæsku sinni. Atvikið náðist að sjálfsögðu á myndband og hefur m.a. verið birt á YouTube.

„Verst að píanóið var ekki gott og það var erfitt að spila á það,“ sagði forsetinn rússneski við blaðamenn í dag. „Ég get ekki sagt að ég hafi spilað; ég snerti bara nóturnar með fingrunum,“ bætti við.

Sagðist forsetinn hafa talið að myndbandið væri til einkanota en það var fyrst sýnt í rússneskum fjölmiðlum.

„En það er allt í lagi. Ég vona að ég hafi ekki valdið ykkur vonbrigðum.“

Þetta mun ekki vera í fyrsta sinn sem Pútín sýnir listræna hlið sína en árið 2010 söng hann Blueberry Hill með Fats Domino á góðgerðarviðburði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert