Myndin bönnuð vegna samkynhneigðar

Mynd frá Úganda.
Mynd frá Úganda. AFP

Hollenska kvikmyndin The Dinner Club verður ekki sýnd á evrópskri kvikmyndahátíð í Úganda eins og til stóð. Ástæðan er sú að nefnd sem ritskoðar efni sem birtist í úgönskum miðlum segir myndina „upphefja samkynhneigð“ en samkynhneigð er bönnuð í landinu. BBC greinir frá. 

Sendiráð Hollands í Úganda harmar þessa niðurstöðu og fyrir vikið hyggst Holland ekki taka þátt í umræddri kvikmyndahátíð. Sendiráðið greindi frá þessu í Facebook-færslu sinni.

Nefndin nefndi fjölmörg atriði í myndinni sem stríddu gegn ríkjandi viðhorfum í Úganda. Þetta eru meðal annars „klúrt orðfæri“ og „reykingar, einkum á meðal kvenna“. Auk þess sem „samkynhneigð væri upphafin þá fullyrða tvær giftar konur (líklega giftar körlum) að hjónaband sé hörku vinna. Þetta stríðir gegn gildum Úganda.“ 

Viðbrögð lesenda við Facebook-færslunni eru af ólíkum toga. Margir íbúar Úganda segja ritskoðunina ekki eiga rétt á sér á meðan aðrir eru hlynntir henni og sammála henni. 

Kvikmyndin The Dinner Club var frumsýnd árið 2010. 

Skjáskot úr myndinni The Dinner Club.
Skjáskot úr myndinni The Dinner Club.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert