Skotinn í höfuðið í mótmælum

Íbúar Venesúela flykkjast út á götur til að mótmæla.
Íbúar Venesúela flykkjast út á götur til að mótmæla. AFP

Sautján ára piltur lést í Venesúela eftir að hafa verið skotinn í höfuðið meðan á mótmælum stóð gegn ríkisstjórn landsins. Þar með hafa fjörutíu látist í mótmælunum á síðustu sex vikum.

Pilturinn var fluttur á sjúkrahús í gær eftir að hafa verið skotinn í bænum Pedraza. Hann lést á sjúkrahúsinu í morgun.

Mótmæli í Venesúla héldu áfram í gær sjöundu vikuna í röð. Mótmælendur hafa komið sér fyrir á vegum sem liggja inn í borgina Caracas og hindra alla bílaumferð. Það sama er uppi á teningnum í að minnsta kosti 50 borgum í landinu. Mótmælin beinast gegn ríkisstjórn forseta landsins, Nicolas Maduro, sem er sakaður um einræðistilburði. Hann er einnig sagður bera ábyrgð á versnandi efnahag í landinu. 

Mótmælendur krefjast þess að haldnar verði forsetakosningar sem fyrst. Maduro hefur gefið það út að kosningar í landinu verði ekki fyrr en seint á næsta ári og alls ekki fyrr. Hann hefur hvorki gefið út hvenær sveitarstjórnarkosningar verða í landinu né hvenær kosið verður um borgarstjórn en þær eiga að vera á þessu ári. 

Maduro hefur jafnframt sakað andstæðinga sína um að vilja koma sér frá völdum með „vopnaðri uppreisn“ sem er studd af bandarískum stjórnvöldum.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert