Trump: Mátti deila upplýsingunum með Rússum

Donald Trump Bandaríkjaforseti og Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands. Rússneska utanríkisráðuneytið …
Donald Trump Bandaríkjaforseti og Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands. Rússneska utanríkisráðuneytið neitaði í morgun að Trump hefði deilt upplýsingum með þeim. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti fullyrti í dag að hann hefði fullan rétt á að deila viðkvæmum upplýsingum með rússneskum stjórnvöldum. Sagði Trump að hann hefði gert það til að hjálpa Rússum „í baráttunni gegn hryðjuverkum og hryðjuverkasamtökunum Ríki íslams“.

„Sem forseti þá vildi ég deila með Rússum, sem ég hef fullan rétt til að gera, á fyrirfram skipulögðum fundi í Hvíta húsinu vissum upplýsingum sem tengjast hryðjuverkum og flugöryggi,“ sagði forsetinn í Twitter-skilaboðum sem hann sendi frá sér nú í morgun.

Starfsfólk Hvíta hússins hafði áður neitað því að forsetinn hefði deilt slíkum upplýsingum með Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, og Sergiei Kislyak,  sendiherra Rússlands í Bandaríkjunum.

Rússneska utanríkisráðuneytið hafði raunar einnig neitað því að Trump hefði deilt slíkum upplýsingum og sagði um „falskar fréttir“ að ræða.

Sagði Trump að „mannúðarástæður“ lægju að baki ástæðu sinnar að deila upplýsingunum. „Auk þess vil ég að Rússar leggi aukinn kraft í baráttuna gegn Ríki íslams og hryðjuverkum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert