Hollendingurinn fljúgandi

Konungur Hollands Willem-Alexander og drottningin Maxima og dætur þeirra þrjár, …
Konungur Hollands Willem-Alexander og drottningin Maxima og dætur þeirra þrjár, Catharina-Amalia, Alexia og Ariane. Myndin er tekin í apríl 2013. OLAF KRAAK

Í rúm tuttugu ár hefur Willem-Alexander, konungur Hollands, verið aðstoðarflugmaður í farþegaflugi að minnsta kosti tvisvar í mánuði. Almennir flugfarþegar hafa hins vegar ekki haft hugmynd um að konungborinn hefði flogið með þá yfir höf og lönd. Þetta kemur fram í viðtali við konunginn í dagblaðinu Telegraf. BBC greinir frá.  

Willem-Alexander sem tók við krúnunni árið 2013 hefur haldið áfram að fljúga. „Mér finnst frábært að fljúga,“ segir hann í viðtalinu. Hann mun halda áfram að vera aðstoðarflugstjóri en ver sumrinu í að læra að fljúga Boeing 737s. Fram að þessu hefur hann helst flogið flugvélum af gerðinni Fokker.

Áður en hann tók við embætti konungs í Hollandi hefur hann verið „gesta flugmaður“ í hinum ýmsu flugferðum til að viðhalda flugréttindum sínum.  

Í síðasta mánuði upplýst ríkisstjórn Hollands um að konungurinn hefði verið aðstoðarflugmaður í fjölmörgum ferðum með Fokker 70 flugvélinni, bæði í flugferðum fyrir ríkisstjórnina og KLM Cityhopper flugfélaginu. Fokker 70 flugvélinni hefur nú verið skipt út fyrir Boeng 737. Farþegar með flugfélaginu KLM Cityhopper er einkum fólk úr atvinnulífinu og eru áfangastaðir helst í Evrópu, einkum Bretlands, Þýskalands og Noregs.  

Notar ekki nafnið sitt en sumir þekkja röddina

Þegar Willem-Alexander flýgur notar hann aldrei sitt raunverulega nafn. Hann segir það mjög sjaldan koma fyrir að fólk þekki hann í sjón í flugmannsbúningnum en það hafi þó komið fyrir að farþegar hafi þekkt röddina hans. 

Í viðtalinu segir hann jafnframt að ef hann hefði ekki fæðst í höll hefði hann viljað vera flugmaður og fljúga stórum farþegaflugvélum.   

Hollenski konungurinn er greinilega ólíkindatól. Það má í raun kalla hann Hollendinginn fljúgandi með vísun í samnefnda þjóðsögu en bindum samt vonir við að örlög kóngsins verði ekki þau sömu og hjá ógæfusama skipstjóranum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert