Til í að deila afriti af samtali af Trump og Lavrov

Vladimír Pútín Rússlandsforseti er tilbúinn að deila upptökum af fundi …
Vladimír Pútín Rússlandsforseti er tilbúinn að deila upptökum af fundi þeirra Trump og Lavrovs með Bandaríkjaþingi. AFP

Vladimír Pútín Rússlandsforseti sagði fréttamönnum í dag að rússnesk stjórnvöld væru reiðubúin að deila afriti af fundi Donald Trump Bandaríkjaforseta með þeim Sergei Lavrov, utanríksráðherra Rússlands, og Sergiei Kislyak, sendi­herra Rúss­lands í Banda­ríkj­un­um, sem haldinn var í Hvíta húsinu í síðustu viku.

Washington Post greindi frá því á mánudag að Trump hefði þar deilt viðkvæm­um og leyni­leg­um upp­lýs­ing­um um hryðju­verka­sam­tök­in sem kenna sig við Ríki íslams. Upp­lýs­ing­arn­ar komu frá banda­manni Banda­ríkj­anna sem hafði ekki gefið banda­rísk­um stjórn­völd­um leyfi til að deila þess­um upp­lýs­ing­um með Rúss­um.

Starfsmenn Hvíta hússins neituðu því alfarið á mánudag að forsetinn hefði deilt slíkum upplýsingum og það sama gerði utanríkisráðuneyti Rússlands í gær.

Trump sjálfur fullyrti hins vegar á Twitter þann sama dag að hann hefði fullan rétt á að deila viðkvæmum upplýsingum með rússneskum stjórnvöldum og að hann hefði gert það til að hjálpa Rúss­um „í bar­átt­unni gegn hryðju­verk­um og hryðju­verka­sam­tök­un­um Ríki íslams“.

Pútín segir Rússa nú vera tilbúna að upplýsa um það sem fram kom á fundinum. „Samþykki bandarísk stjórnvöld að það verði gert erum við tilbúin að deila afriti af samræðum Lavrov og Trump með Bandaríkjaþingi,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert