Trump og Netanyahu ræddust við í síma

Donald Trump og Benjamin Netanyahu ganga saman inn í Hvíta …
Donald Trump og Benjamin Netanyahu ganga saman inn í Hvíta húsið í febrúar. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti og Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, ræddust við í síma í gær en fjölmiðlar vestanhafs hafa greint frá því að upplýsingarnar sem Trump deildi með Rússum í síðustu viku komu frá Ísrael.

Talsmaður skrifstofu Netanyahu staðfesti við AFP að leiðtogarnir hefðu ræðst við í 20 mínútur en sagði samtal þeirra eingöngu hafa snúið að heimsókn Bandaríkjaforseta til Ísraels í næstu viku. Talsmaðurinn vildi ekki gefa upp hver átti frumkvæðið að samskiptunum.

Avigdor Lieberman, varnarmálaráðherra Ísraels, lofaði í gær varnarsamstarf Bandaríkjanna og Ísraels og sagði að það yrði áfram „fordæmalaust“ að umfangi. Hann minntist ekki á ákvörðun Trump um að deila leynilegum upplýsingum með Rússum.

Bandaríkin eru mikilvægasti bandamaður Ísraels og verja 3 milljörðum dala til varnarmála ríkisins árlega.

Washington Post greindi frá því á mánudag að Trump hefði deilt leynilegum upplýsingum um Ríki íslams með Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, og Sergey Kislyak, sendiherra Rússlands í Washington, á fundi í síðustu viku.

Þá hefur AFP fengið það staðfest innan stjórnkerfisins að umræddar upplýsingar hefðu komið frá Ísrael en New York Times greindi fyrst frá því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert