Fær höfuðstöðvar á næstunni

Federica Mogherini, utanríkismálastjóri ESB.
Federica Mogherini, utanríkismálastjóri ESB. AFP

Höfuðstöðvar fyrir hernaðarsamstarf ríkja Evrópusambandsins gætu litið dagsins ljós innan fárra daga að sögn Federicu Mogherini, utanríkismálastjóra sambandsins, eftir að utanríkisráðherrar ríkjanna komu sér saman um það.

Fram kemur í frétt AFP að málið hafi strandað til þessa á andstöðu Breta. Hins vegar virðist ákvörðun Bretlands um að segja skilið við Evrópusambandið hafa greitt fyrir samkomulagi um höfuðstöðvarnar. Mogherini sagði við blaðamenn í Brussel í Belgíu að endanlegur texti samkomulagsins myndi liggja fyrir innan tveggja daga.

Reiknað er með að tilkynnt verði formlega um stofnun höfuðstöðvanna á morgun. Bretar hafa til þessa lagst gegn höfuðstöðvunum sem litið er á sem skref í áttina að mögulegum Evrópuher. Þá hafa þeir fremur viljað leggja áherslu á hernaðarsamstarf á vettvangi NATO. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert