Ætlaði inn í flugstjórnarklefann

Flugvél American Airlines. Myndin er úr safni.
Flugvél American Airlines. Myndin er úr safni. AFP

Tvær bandarískar herþotur fylgdu flugvél frá flugfélaginu American Airlines til lendingar á alþjóðaflugvellinum í Honolulu í gærkvöldi. Talið er að farþegi hafi ætlað að brjóta sér leið inn í flugstjórnarklefann.

Flugvélin var á leiðinni frá Honolulu á Hawaii til Los Angeles. Maðurinn, sem er frá Tyrklandi, var yfirbugaður í flugvélinni, og lenti hún örugglega. Enginn er sagður hafa slasast.

Starfsmaður bandarísku alríkislögreglunnar, FBI, sagði við blaðamenn í Honolulu að atvik hafi áður komið upp tengt manninum á alþjóðaflugvellinum í Los Angeles, að því er The Guardian greindi frá.

Maðurinn heitir Anil Uskanil og er 25 ára og er lögreglan að undirbúa kæru á hendur honum.

Á flugvellinum í Los Angeles var Uskanil handtekinn og yfirheyrður eftir að hann hafði farið inn um dyr á flugstöðvarbyggingunni sem leiða út á flugvöllinn. Honum var sleppt að yfirheyrslum loknum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert