Dómsdagshvelfingin tekin í gegn

Dómsdagshvelfingin, eða Hnattræna fræhvelfingin, er á Svalbarða. Hún var opnuð …
Dómsdagshvelfingin, eða Hnattræna fræhvelfingin, er á Svalbarða. Hún var opnuð árið 2008. Ljósmynd/Croptrust.org

Norsk stjórnvöld ætla að efla flóðvarnir í Dómsdagshvelfingunni svokölluðu á Svalbarða eftir að flóðvatn komst inn í hvelfinguna í fyrra.

Geymslunni, sem er byggð inn í fjall, er ætlað að varðveita í miklum kulda um 4,5 milljónir fræsýna frá öllum heiminum til að koma í veg fyrir að þau tortímist af völdum loftslagsbreytinga, styrjalda, náttúruhamfara eða annarra ógna. Talið er að hægt sé að varðveita þau við þessar aðstæður í mörg hundruð ár.

Það var óvenjuhlýtt á Svalbarða í fyrra sem leiddi til þess að snjór bráðnaði með þeim afleiðingum að vatn fór inn í göng þar sem gengið er inn í hvelfinguna, að því er segir í frétt á vef BBC.

Engar skemmdir urðu á fræsýnum en nýir vatnsheldir veggir verða reistir í göngunum og búnir til skurðir fyrir utan til að taka við leysingavatni.

Hnattræna fræhvelfingin var tekin í notkun með viðhöfn í Longyearbyen á Svalbarða 25. febrúar 2008. Hugmyndin er að hún verði eins konar baktrygging fyrir um 1.400 aðra fræbanka víðs vegar um heim; ef eitthvað komi fyrir þá verði eftir sem áður til sýni á Svalbarða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert