Karlmenn mótmæla ofbeldi gegn konum

Kona klædd í hvítt fór fyrir mótmælunum.
Kona klædd í hvítt fór fyrir mótmælunum. AFP

Mörg hundruð manns mótmæltu ofbeldi gegn konum í Suður-Afríku í dag. Ofbeldi í garð kvenna og barna, bæði nauðganir og morð, fer stigvaxandi. Forsíður blaðanna og fjölmiðlar greina daglega frá hrottafengnu ofbeldi sem konur verða fyrir. Í síðustu viku var þriggja ára stúlkubarni nauðgað og það myrt.

Aðgerðarsinnar gengu um götur og mótmæltu undir slagorðinu #Not In My Name. Karlmenn voru í meirihluta mótmælenda. Kona klædd í hvítt frá toppi til táar fór fyrir mótmælunum.

Fjölmargir tóku þátt í mótmælunum.
Fjölmargir tóku þátt í mótmælunum. AFP

Karlmenn verða að taka ábyrgð 

„Núna er tími til að taka sameiginlega ábyrgð á gjörðum okkar,“ sagði Kholofelo Masha, einn af skipuleggjendum mótmælanna. Hann lýsti sjálfum sér sem „elskandi föður, bróður og frænda“. Hann sagði jafnframt að suður-afrískir karlmenn hafi fram að þessu þagað yfir ofbeldinu of lengi. „Þú heyrir konu öskra í næsta herbergi en ákveður að sofa þegar þú veist að það er vandamál hinum megin við vegginn [...] enginn maður á að berja konu. Enginn maður á að nauðga konu á þinni vakt.“  

Glæpatíðni í Suður-Afríku er með því hæsta í heimi. Samkvæmt opinberum tölum er kona myrt á átta klukkustunda fresti einhvers staðar í landinu. Gerandinn er yfirleitt einhver sem hún þekkir. Þá hefur ein af hverjum fimm konum verið þolandi ofbeldis að minnsta kosti einu sinni yfir ævina.    

Kastljós fjölmiðla beindist í auknum mæli að ofbeldi í landinu eftir  að Oscar Pistorius myrti konu sína Reeva Steinkamp.

Sumir karlmenn voru með svart límband strengt yfir munninn sem …
Sumir karlmenn voru með svart límband strengt yfir munninn sem tákn um þöggun karlmanna yfir ofbeldi gegn konum. AFP

„Nóg er nóg“

Á þriðjudaginn í síðustu viku heimsótti Jacob Zumba, forseti Suður-Afríku, foreldra þriggja ára stúlku sem var nauðgað og myrt. „Við verðum að segja nóg er nóg,“ sagði Zumba af því tilefni. „Þetta er eitt af því hrikalegasta sem ég veit um. Það er ólíðandi að börn og konur búi við þetta hættuástand, að þau geti verið myrt,“ sagði hann jafnframt.

Stjórnmálaflokkurinn Lýðræðisbandalagið (Democratic Alliance) sem er í minnihluta hefur sagt að stjórnvöld í Suður-Afríku hafi brugðist í því að gera landið öruggt fyrir alla. Hann hvetur jafnframt til aðgerða í öllu landinu.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert