Vilja hærri skerf olíuauðlinda

Mótmælendur við bensínstöð í el-Kamour í Túnis.
Mótmælendur við bensínstöð í el-Kamour í Túnis. AFP

Hermenn í Túnis skutu tveimur skotum í átt að mótmælendum í dag þar sem þeir hugðust loka fyrir aðgang að olíu- og bensínvinnslustöð. Þeir krefjast þess að stærri skerfur úr olíuauðlindum landsins renni í vasa almennings og mótmæla einnig miklu atvinnuleysi.

Skotunum var hleypt af þegar mótmælendur reyndu að ryðjast yfir járngrindverk sem er í kringum olíu- og bensínvinnslustöðina í El Kamour í Tataouine-héraði. Undanfarið hafa mótmæli brotist út á svæðinu þar sem miklu atvinnuleysi, fátækt og sinnuleysi stjórnvalda er mótmælt.

Í apríl gerði forsætisráðherra landsins, Youssef Chahed, tilraun til að ferðast um héraðið og kynna sér stöðuna en hróp voru gerð að honum og hann hrökklaðist burt af miklum hitafundi.  

Í síðustu viku sagði Beji Caid Essebsi, forseti landsins, að herinn muni standa vörð um innviði landsins þrátt fyrir að mótmælendur reyndu að koma í veg fyrir það með kröfu um umbætur á atvinnumálum og félagslega kerfinu.     

Frá mótmælum 11. apríl 2017 í Tataouine í suðurhluta Túnis.
Frá mótmælum 11. apríl 2017 í Tataouine í suðurhluta Túnis. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert