200.000 mótmæltu í Venesúela

Yfir 200.000 mótmælendur komu saman í Venesúela í gær til að mótmæla Nicolas Maduro, forseta landsins, og ríkisstjórn hans. Mótmæli hafa staðið yfir í landinu í 50 daga og oft hafa brotist út hörð átök. Maduro er gríðarlega óvinsæll meðal almennings.

Lögreglan beitti táragasi á hóp mótmælenda í höfuðborginni Caracas. Þar er mikill skortur á mikilvægum nauðsynjavörum. Stjórnarandstaðan í landinu segir að Maduro beri ábyrgð á afar slæmu efnahagsástandi í Venesúela, sem er mjög auðugt af olíu. Andstaðan krefst þess að kosningum verði flýtt til að koma forsetanum, sem tók við af Hugo Chavez, frá. 

Mótmælin hafa staðið yfir í sjö vikur og alls hafa 47 látist. 

Alls söfnuðust saman 160.000 mótmælendur í höfuðborg landsins sem gengu í gegnum borgina að innanríkisráðuneytinu í miðborginni. 

Lögreglumenn leystu upp samkomuna með táragasi. Mótmælendur brugðust við með því að kasta grjóti og bensínsprengjum. 

Að minnsta kosti 46 særðust í Chacao-hverfi í austurhluta borgarinnar. Þar varð kona m.a. fyrir ökutæki. 

Í útjaðri borgarinnar brutust víða út óeirðir í nótt.

Talið er að um 40.000 mótmælendur hafi komið saman í borginni San Cristobal, sem er í Tachira-ríki. Forsetinn sendi 2.600 hermenn til ríkisins fyrr í vikunni til að sporna gegn ofbeldisverkum og þjófnaði. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert