20 uppljóstrar myrtir eða fangelsaðir

Árið 2010 fór að berast mun minna af upplýsingum til …
Árið 2010 fór að berast mun minna af upplýsingum til CIA frá uppljóstrurum í Kína. Árið 2011 fóru menn að hverfa. AFP

Kínversk stjórnvöld hafa myrt eða fangelsað hátt í 20 uppljóstrara bandarísku leyniþjónustunnar CIA á milli áranna 2010 og 2012. Frá þessu greinir bandaríska dagblaðið The New York Times. Þetta hefur skaðað upplýsingaöflun Bandaríkjanna í Kína.

Fram kemur á vef BBC, að það sé óljóst hvort mönnum hafi tekist að brjótast inn í tölvukerfi CIA eða hvort uppljóstrari á vegum kínverskra yfirvalda hafi aðstoðað við að bera kennsl á uppljóstrara bandarísku leyniþjónustunnar. 

New York Times segir að einn mannanna hafi verið skotinn til bana í húsgarði opinberrar byggingar. Þetta hafi verið gert til að senda út aðvörun. 

CIA hefur ekki tjáð sig um frétt blaðsins. 

Fjórir fyrrverandi starfsmenn CIA ræddu aftur á móti við The New York Times. Þeir segja að árið 2010 hafi leyniþjónustan farið að fá sífellt minni upplýsingar frá uppljóstrurum sem störfuðu innan kínverska stjórnkerfisins. Snemma árs 2011 fóru uppljóstrarar svo að hverfa. 

CIA, í samstarfi við bandarísku alríkislögregluna, FBI, hófu í kjölfarið rannsókn. Sú rannsókn snerist að mestu um einn fyrrverandi starfsmann CIA. Hins vegar fundu menn ekki nægilega sterk sönnunargögn til að handtaka manninn og sækja til saka. Sá maður býr nú í öðru ríki í Asíu. 

Árið 2012 var embættismaður hjá öryggismálaráðuneyti Kína handtekinn, grunaður um að njósna fyrir Bandaríkin. Hann er sagður hafa verið fenginn til liðs við CIA síðar. Engar aðrar handtökur á borð við þessa hafa vakið athygli almennings síðan þá. 

Matt Apuzzo, blaðamaður New York Times sem vann að fréttinni, segir í samtali við BBC, að eitt af því óþægilega við þetta er „að við vitum ekki enn hvað gerðist.“

Bandarísk stjórnvöld séu ekki sammála um það hvort Kínverjar hafi komið fyrir eigin uppljóstrara, hvort starfsmenn CIA hafi sofnað á verðinum og ekki gætt sín nægilega vel og vandað til verka eða hvort stjórnvöld í Kína hafi náð að brjótast inn í tölvukerfi bandarísku leyniþjónustunnar.

Árið 2015 voru starfsmenn bandaríska sendiráðsins í Peking kallaðir heim eftir að tölvuárás, sem Bandaríkjastjórn sagði kínversk yfirvöld bera ábyrgð á, leiddi til þess að upplýsingar voru birtar opinberlega um milljónir opinberra starfsmanna í Bandaríkjunum. Hafi svipuð tölvuárás ljóstrað upp um þá sem voru að störfum fyrir CIA í Kína var enginn sem sagði frá því opinberlega. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert