Eftirlaunaaldur ekki hækkaður

Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur.
Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur. AFP

Danska ríkisstjórnin hefur hætt við áform sín um að hækka eftirlaunaaldurinn í landinu vegna þess að ekki fæst nægur stuðningur fyrir því á þinginu.

„Það er mjög ólíklegt að það náist nægilega mikill stuðningur,“ sagði forsætisráðherra Danmerkur, Lars Løkke Rasmussen, í samtali við DR.

Ekki kemur til greina að hækka eftirlaunaaldurinn um sex mánuði, úr 67 árum upp í 67,5 ár.

„Í dag lifum við lengur en við reiknuðum með og á sama tíma vantar starfsfólk,“ sagði Rasmussen og bætti við að það ætti að réttlæta það að eftirlaunaaldurinn verði hækkaður.

Jyllandsposten greinir frá því að á síðustu tuttugu árum hafi lífslíkur 60 ára karla hækkað um 4,2 ár og kvenna um 3,4 ár, samkvæmt upplýsingum frá fjármálaráðuneytinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert