Einn lét lífið á Everest í dag og annar er týndur

Þrír hafa látið lífið á Everest á þessu ári.
Þrír hafa látið lífið á Everest á þessu ári. AFP

Einn Bandaríkjamaður lét lífið skammt frá toppi Everest í dag og indverskur maður er týndur eftir að hann lagði af stað frá toppnum og niður. Hinn fimmtugi Roland Yearwood, frá Georgiana í Alabama, lét lífið á fjallinu í dag en frekari upplýsingar liggja ekki fyrir um hvað gerðist. 

Chicago Tribune segir frá. 

Indverski fjallagarpurinn Ravi Kamar veiktist á leið sinni niður af toppnum á laugardaginn og hefur ekki enn komist í næstu búðir fyrir neðan. Sjerpinn sem fylgdi honum komst hins vegar í búðirnar. Hann veiktist líka en náði að skríða í búðirnar sem eru í 8.000 metra hæð. Hann þurfti súrefniskút og var með kal.

Þrír sjerpar fóru með þyrlu frá búðum 2 og í búðir 4 til þess að hjálpa til við leitina. Kamar og sjerpinn náðu toppnum um klukkan 13:30 að staðartíma á laugardaginn sem er talið nokkuð seint og voru ekki margir á ferðinni í kringum toppinn þegar þeir héldu af stað niður.

Yearwood er þriðji til þess að deyja á Everest-fjalli á þessu ári.

Ferðamálayfirvöld í Nepal veittu 371 manns leyfi til þess að halda af stað upp á toppinn á þessu ári. Er um töluverða aukningu að ræða milli ára og er það rakið til þess hversu fáir gátu farið upp á toppinn 2014 og 2015. Árið 2015 létu 19 göngumenn lífið og 61 slasaðist eftir að snjóflóð féll á grunnbúðirnar eftir jarðskjálfta. Árið 2014 létu 16 sjerpar lífið eftir snjóflóð í Khumbu-skriðjöklinum.

Fólk greiðir yfirleitt um 11.000 Bandaríkjadali fyrir leyfi til þess að klífa Everest eða sem nemur 1,1 milljón íslenskra króna.

Vil­borg Arna Giss­ur­ar­dótt­ir komst í nótt á topp Ev­erest-fjalls og varð þar með sjö­undi Íslend­ing­ur­inn sem nær þess­um merka áfanga. Hún komst á tind­inn um klukk­an 03:15 í nótt að ís­lensk­um tíma en gang­an frá fjórðu búðum á tind­inn tók ell­efu klukku­stund­ir. 

Að sögn kærasta Vilborgar í samtali við mbl.is í morgun gekk Vilborgu og leiðsögumanni hennar mjög vel að komast niður og voru komin í tjald. Á morg­un munu þau svo halda áfram í aðrar búðir fjalls­ins sem eru í 6.400 metra hæð. Þaðan fara þau niður í grunn­búðirn­ar sem eru í um 5.300 metra hæð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert