Endurheimti lífsgleðina

Jacob Lemay, 7 ára, hét áður Mia. Hann vissi það …
Jacob Lemay, 7 ára, hét áður Mia. Hann vissi það frá unga aldri að hann væri ekki stelpa. AFP

Mánuðum saman var sama setningin endurtekin á heimili Lemay-fjölskyldunnar. Eitt þriggja ungra barna Mimi og Joe Lemay, sem var farið að sýna einkenni þunglyndis, tautaði í sífellu sömu orðin: „Þetta eru  mistök; ég er ekki stelpa, ég er strákur.“ Að lokum sannfærðist fjölskyldan um að Mia væri Jacob.

Heimili Lemay-fjölskyldunnar er stórt og keimlíkt fjölda annarra heimila í hinu vinsæla og fjölskylduvæna Melrose-úthverfi í norðurhluta Boston. Mimi og Joe eru foreldrar tveggja dætra, 8 og 4 ára, og nú 7 ára drengs sem var nefndur Mia þegar hann kom í heiminn árið 2010 en breytti nafninu sínu í Jacob aðeins 4 ára.

Nú þegar hatrammar deilur standa yfir í Bandaríkjunum um rétt trans-nemenda, m.a. varðandi notkun á salernum, eru Mimi og Joe staðráðin í að deila sögu sinni, m.a. hvaða áhrif það hafði á fjölskylduna þegar þau áttuðu sig á því að Mia væri drengur. Með því vilja þau veita þeim hughreystingu og aðstoð sem standa í sömu sporum.

Engar opinberar tölur liggja fyrir vestanhafs um tíðni þess sem kallað hefur verið á íslensku „kynáttunarvandi“ en ef marka má stuðningssíður á Facebook eiga hundruð foreldra börn sem eru að fara í gegnum kynleiðréttingarferlið.

Jacob ásamt foreldrum sínum, Mimi og Joe Lemay.
Jacob ásamt foreldrum sínum, Mimi og Joe Lemay. AFP

Í dag eru nærri þrjú ár liðin frá því Lemay-fjölskyldan horfðist í augu við það að Mia þyrfti að fara í gegnum ferlið. Nánustu hafa tekið Jacob vel en Mimi viðurkennir að hafa upplifað erfið augnablik og „sorgardaga“.

„Þetta er ljúfsárt; það felst mikil gleði í því að sjá barnið þitt blómstra en líka miklar áhyggjur vegna fjandsamlegra viðhorfa umheimsins,“ segir Mimi í samtali við AFP. „Þú upplifir líka missi; manneskjan kann að vera einhver önnur en þú hélst að hún væri en fyrir þér var hún samt raunveruleg.“

Fjölskyldan sér ekki eftir neinu.

Burstaklipptur Jacob segist elska knattspyrnu og saumaskap, og brosir tannlausu brosi.

„Að sjá þá hamingju sem leiðréttingarferlið fól í sér var besta þerapía sem ég hefði getað óskað,“ segir Mimi.

Jacob var farinn að sýna einkenni þunglyndis en varð allt …
Jacob var farinn að sýna einkenni þunglyndis en varð allt annað barn þegar hann fékk að vera hann sjálfur. AFP

„Rétt ákvörðun“

Innan nokkurra vikna „birti yfir honum og hann varð allt annað barn. Hann fór aftur að hlæja,“ segir Joe. „Áður var hann þunglyndur, vildi ekki vakna,“ rifjar faðir hans upp. „Eftir á að hyggja er augljóst að við tókum rétta ákvörðun.“

Mimi, hin 40 ára móðir Jacob, ólst upp meðal strangtrúaðra gyðinga. Hún yfirgaf samfélagið á fullorðinsaldri og segir eigin uppreisn hafa hjálpað sér við að komast í gegnum leiðréttingarferli sonar síns.

„Þar sem ég hafði þegar gengið í gegnum þá reynslu fannst mér auðveldara að segja við barnið mitt, óháð samfélagslegum normum: „Ég sé þig, ég sé manneskjuna sem þú ert og það er mér mun mikilvægara, og ég þarf ekki að fylgja venjum,“,“ segir Mimi.

Joe, sem er 39 ára og stofnandi nýsköpunarfyrirtækis sem framleiðir rafrænar stílabækur, segist einnig ánægður með ákvarðanir þeirra hjóna.

„Engin óskar barninu sínu að vera mikið öðruvísi en aðrir og á þann hátt að það geti skapað því vandamál á lífsleiðinni,“ segir hann. „Þú getur ímyndað þér hvernig mér leið.

Ég var vanur að kalla Miu búdda-barnið mitt því hún var svo glöð og bjart yfir henni, síbrosandi. Svo horfði ég upp á sama barn verða afar þungbúið og myrkt barn.“

Mimi og Joe hafa helgað sig því að hjálpa öðrum …
Mimi og Joe hafa helgað sig því að hjálpa öðrum foreldrum trans-barna. AFP

Líflína

Eftir að þau leituðu til sérfræðinga og stuðningshópa fyrir trans-börn varð valið ljóst.

Ef þau neituðu Jacob um að lifa sem drengur átti hann á hættu að upplifa skömm og þróa með sér raunveruleg andleg vandamál, segir Joe. Sú ákvörðun hefði m.a. sett Jacob í aukna áhættu varðandi sjálfsvíg.

Ef þau samþykktu kröfur barnsins fólst áhættan í mögulegum vandræðalegheitum eða í því að þurfa mögulega að flytja. Sú áhætta var ásættanlegri að sögn fjölskylduföðurins. „Mér fannst kynleiðrétting varfærnislega valið; áhættan var að segja nei, ekki strax eða alls ekki.“

Mimi og Joe vita ekki hvað verður þegar Jacob kemst á kynþroskaaldur; hvort hann mun vilja hefja hormónameðferð með það að markmiði að gangast undir leiðréttingaaðgerð.

Í dag eru þau hins vegar líflína annarra foreldra sem eiga ung börn sem hafa hafnað því kyni sem líkami þeirra segir til um. Þau hafa ítrekað talað um það á samfélagsmiðlum og námskeiðum hvernig Jacob endurheimti gleðina.

„Við upplifðum hversu mikil andstaða ríkir gagnvart hugmyndinni að barn sé trans,“ segir Mimi. „Það var andleg brú sem fólk virtist ekki komast yfir.“

Jacob verður sjálfur að gera upp við sig hvort hann …
Jacob verður sjálfur að gera upp við sig hvort hann vill hefja hormónameðferð þegar hann kemst á kynþroskaaldurinn. AFP

Lemay-hjónin segjast gera sér grein fyrir því að menntunar sinnar vegna og umhverfis séu þau í forréttindastöðu. Þau búa í Massachusetts, sem er eitt framsæknasta ríki Bandaríkjanna og var það fyrsta til að lögleiða hjónaband samkynhneigðra.

Eftir leiðréttinguna í júní 2014 skipti Jacob um skóla og er nú tekið sem dreng af bekkjarfélögum sem hafa ekki hugmynd um að hann var eitt sinn kallaður Mia.

Skólastjórinn Mary Beth Maranto skipulagði fræðslu um trans-nemendur og gaf kennurum skólans tækifæri til að spyrja spurninga.

„Samfélagið mun samþykkja þetta að lokum,“ segir Joe. „Nú eru til samfélagsmiðlar þar sem fólk getur frætt hvert annað, fjölskyldur geta komið saman; enginn getur látið sem þetta sé ekki að gerast.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert