Gengu út úr eigin útskrift

Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna.
Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna. AFP

Hópur útskriftarnema úr Notre Dame-háskólanum í Bandaríkjunum gekk út úr sinni eigin útskriftarathöfn í dag til þess að mótmæla ræðumanni dagsins, varaforsetanum Mike Pence.

Pence var fenginn til þess að ávarpa útskriftarnemana í háskólanum sem er einn þekktasti kaþólski háskóli Bandaríkjanna. Venjulega býður skólinn forsetum Bandaríkjanna að halda ræðuna á sínu fyrsta ári í embætti en þúsundir nemenda og starfsmanna háskólans skrifuðu undir undirskriftarlista þess efnis að Donald Trump, forseti landsins, myndi ekki halda ræðuna. Í staðinn var varaforsetinn fenginn en hann var einmitt ríkisstjóri í Indiana, þar sem Notre Dame-háskólinn er, áður en hann varð varaforseti.

Hópur innan skólans sem kallar sig We StaND For skipulagði útgönguna til þess að mótmæla stefnumálum Pence og sökuðu hann um að gera viðkvæmustu hópa samfélagsins að skotmarki.

Samkvæmt frétt Washington Post vissu starfsmenn skólans af áætlunum nemendanna og reyndu ekki að stöðva þá. Meira en hundrað útskriftarnemar gengu hljóðlega út þegar Pence var kynntur á svið. Vitnað er í Paul Browne, starfsmann skólans, sem sagði að forsetum og varaforsetum hefði oft verið mótmælt í skólanum og að svo lengi sem þeir trufli ekki athöfnina væri í lagi að útskriftarnemarnir myndu ganga út.

Til að mynda mótmæltu mörg hundruð andstæðingar fóstureyðinga Barack Obama, þáverandi forseta Bandaríkjanna, árið 2009 þegar hann ávarpaði útskriftarnemana í Notre Dame.

Myndband af útgöngunni má sjá hér að neðan. 


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert