Sameinuð á ný eftir þrjú ár

Það var tilfinningaþrungin stund þegar dæturnar hittu foreldra sína á …
Það var tilfinningaþrungin stund þegar dæturnar hittu foreldra sína á nýjan leik. AFP

Hluti skólastúlknanna frá Chibok, sem liðsmenn Boko Haram í Nígreríu slepptu úr haldi, hefur hitt fjölskyldur sínar á nýjan leik. Um er að ræða 82 stúlkur sem rænt var úr skóla árið 2014 í bænum Chibok. Þær hafa verið í umsjá yfirvalda í Abuja, höfuðborg landsins.

Foreldrar þeirra ferðuðust til borgarinnar um nótt með rútu til að hitta dæturnar, að því er fram kemur á vef BBC.

Mikil fagnaðarlæti brutust út í borginni.
Mikil fagnaðarlæti brutust út í borginni. AFP

Þar segir enn fremur, að ríflega 100 af þeim 276 stúlkum sem var rænt árið 2014 séu enn í haldi Boko Haram. Það er ekki vitað hvar þær eru niðurkomnar. 

Mikil fagnaðarlæti brutust út í Abuja þegar fjölskyldurnar sameinuðust. Fréttamaður BBC í borginni segir að stúlkurnar hafi verið að dansa þegar foreldrar þeirra flýttu sér út úr rútunni og hlupu til þeirra. Þetta hafi verið tilfinningaþrungin stund. 

Stúlkunum 82 hafði aðeins verið sleppt fyrir hálfum mánuði í skiptum fyrir fimm liðsmenn Boko Haram sem höfðu verið í haldi yfirvalda. 

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert